Frakkland er komið í úrslitaleik Evrópumóts kvenna í körfubolta en fyrri undanúrslitaleikurinn fór fram í Belgrade í dag. Frakkar unnu þá sigur á Bretlandi, 63-56.
Bretarnir byrjuðu vel og voru 16-12 yfir eftir fyrsta leikhlutann en þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan jöfn, 34-34.
Í síðari hálfleik voru Frakkarnir ívið sterkari. Þær frönsku náðu upp forskoti í þriðja leikhlutanum sem þær létu aldrei af hendi og unnu að lokum sjö stiga sigur, 63-56.
Marine Johannès var stigahæst í liði Frakka en hún skoraði 20 stig. Að auki tók hún fjögur fráköst en í liði Bretlands var það Rachael Vanderwal sem var stigahæst með tólf stig.
Frakkarnir mæta því annað hvort Spáni eða Serbíu í úrslitaleiknum sem fer fram annað kvöld.
Frakkland í úrslit
