Innlent

Fimm börn til viðbótar greind með sýkingar af völdum E. coli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að börnin sem greindust um helgina með sýkingu af völdum E. coli baktería séu sem betur fer ekki alvarlega veik.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að börnin sem greindust um helgina með sýkingu af völdum E. coli baktería séu sem betur fer ekki alvarlega veik. Vísir/Baldur
Fimm börn greindust með sýkingar af völdum E. coli baktería um helgina til viðbótar við þau fjögur sem greinst höfðu og greint var frá fyrir helgi.

Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í samtali við Vísi en börnin fimm hafa ekki greinst með alvarleg einkenni.

„Núna yfir helgina hafa greinst fimm börn til viðbótar þannig að þá eru börnin alls orðin níu sem eru komin á lista. En þessi börn sem greindust um helgina eru sem betur fer ekki alvarlega veik, þau hafa ekki greinst með alvarleg einkenni en þau verða áfram undir eftirliti og fylgst með hver þróunin verður. Hin börnin sem greindust eru á batavegi og eitt barn liggur enn þá inni á Barnaspítalanum,“ segir Þórólfur.

Aðspurður hvort að börnin sem greindust um helgina eigi það sameiginlegt með hinum börnunum fjórum að hafa verið á ferð um Bláskógabyggð undanfarnar vikur segir Þórólfur svo vera. Þá eru þau einnig búsett á höfuðborgarsvæðinu líkt og börnin sem greindust fyrst.

Þórólfur segir vinnu enn í gangi varðandi uppruna smitsins.

Ekki tímabært að segja til um hvort líklegra sé að smitið komi úr vatni eða matvælum

„Við eigum eftir að vinna betur úr þessum upplýsingum um þessi nýju tilfelli sem komu upp um helgina. Það er svolítil vinna að fá þá sýn á það og sjá hvar þessir sameiginlegu punktar barnanna liggja. Svo eru svona bakteríulógískar rannsóknir sem við þurfum að styðjast við þannig að þetta er allt í vinnslu og á meðan það liggur ekki alveg fyrir þá vill maður ekki mikið tjá sig um það,“ segir Þórólfur.

 

Hann segir reynt með ákveðnum faraldsfræðilegum upplýsingum að negla niður líklegustu staðina hvar smitið hafi átt sér stað.

„Þá er tekið sýni þaðan og það gildir bæði um matvæli, vatn og fleira sem er verið að skoða.“

Þórólfur segir ekki tímabært að segja neitt um það á þessu stigi hvort líklegra sé að smitið komi úr matvælum eða vatni.

„Það geta verið alls konar vangaveltur, teoríur og kenningar og því um líkt en það á ekki heima í fjölmiðlum. Við erum bara að vinna og skoða þessa hluti og þegar við erum orðin nokkuð viss um hvaðan þetta kemur þá munum við segja það. En á meðan svo er ekki þá höldum við þessari vinnu fyrir okkur,“ segir Þórólfur.

Fólk getur smitast af E. coli með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við dýr eða mengaðan úrgang dýra.

Þannig kemst bakterían um munn og niður í meltingarveg þar sem hún framleiðir eiturefni sem getur valdið blóðugum niðurgangi og í alvarlegum tilfellum nýrnabilun og blóðleysi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×