Körfubolti

Segir næsta tíma­bil það stærsta á ferlinum og dreymir um að spila með risunum á Spáni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Landsliðsmaðurinn í körfubolta Martin Hermannsson spilar í Euroleague á næsta tímabili. Hann segist vera að fara inn í sitt stærsta tímabil á ferlinum.

KR-ingurinn var í lykilhlutverki á sínu fyrsta tímabili hjá Alba Berlín á síðustu leiktíð. Liðið fór í úrslitaleik Evrópukeppninnar, þýsku bikarkeppninnar og þýsku deildarinnar en fékk silfur í öllum keppnum.

„Það svíður rosalega að hafa ekki unnið allavega einn titil af þessum þremur en þetta var gaman að fá að taka þátt í þessu. Það voru forréttindi að upplifa þetta

„Það eru ekkert allir sem fá þetta tækifæri,“ en árangur Martins og félaga á síðustu leiktíð gerir það að verkum að liðið spilar í Euroleague, einni stærstu keppni körfuboltans næsta vetur.

„Það er spennandi að taka þátt í því og koma sér í gang fyrir Euroleague. Ég er að fara í mitt stærsta tímabil á ferlinum og þarf heldur betur að vera klár í það.“

Martin segir að hann sé byrjaður að undirbúa sig fyrir komandi leiktíð og það sé margt sem hann geti bætt þrátt fyrir flotta síðustu leiktíð.

„Það er margt sem ég þarf að bæta og laga. Ég hlakka bara til að taka þátt í þessu öllu,“ sagði Martin.

Allt innslagið má sjá í sjónvarpsglugganum hér að ofan þar sem Martin ræðir meðal annars um framtíð sína í körfuboltanum og draumaliðin sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×