Viðskipti innlent

Taconic Capital bætir enn við sig í Kaupþingi

Hörður Ægisson skrifar
Frank Brosens, stofnandi og eigandi Taconic Capital.
Frank Brosens, stofnandi og eigandi Taconic Capital.
Sjóðir í stýringu bandaríska vogunarsjóðsins Taconic Capital, sem á sextán prósenta hlut í Arion banka, bættu lítillega við hlut sinn í Kaupþingi í fyrra – úr 45 prósentum í 48 prósent – en sjóðurinn er sem fyrr langsamlega stærsti hluthafi eignarhaldsfélagsins. Frá því í ársbyrjun 2016 hefur Taconic meira en þrefaldað eignarhlut sinn í Kaupþingi.

Heildareignir Kaupþings minnkuðu um 82 milljarða króna, þar sem mest munaði um sölu á eignarhlutum félagsins í Arion banka, og námu þær um 151 milljarði í árslok 2018. Kaupþing átti þá enn tæplega þriðjungshlut í bankanum en það sem af er þessu ári hefur félagið selt í Arion fyrir samtals um tuttugu milljarða króna og fer núna með fimmtungshlut.

Á sama tíma og Taconic Capital jók við hlut sinn í Kaupþingi þá minnkaði hlutur bandaríska vogunarsjóðsins Och-Ziff Capital um liðlega helming og var rúmlega sex prósent í lok síðasta árs. Sjóðurinn, sem stóð að baki kaupum í Arion banka ásamt Taconic, Goldman Sachs og Attestor Capital í mars 2017, er í dag þriðji stærsti hluthafi Arion með 7,25 prósenta hlut. Eignarhlutur annarra helstu hluthafa Kaupþings – Centerbridge Credit Partn­ers (9,1%), Attestor (5,9%), JP Morgan (5%), Citadel Equity (4,6), Deutsche Bank (4,1%) og Goldman Sachs (3%) – hélst meira og minna óbreyttur á milli ára.

Í ársreikningi Kaupþings er bent á, eins og áður hefur verið upplýst um í Markaðinum, að samkvæmt úrskurði Fjármálaeftirlitsins þurfi Kaupskil, dótturfélag Kaupþings, og Taconic Capital að minnka samanlagðan eignarhlut sinn í Arion banka niður fyrir 33 prósent fyrir 16. september næstkomandi. FME lítur svo á að Kaupskil og Taconic séu í samstarfi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki enda er sjóðurinn með nærri helmingshlut í Kaupþingi.

Kaupskil og Taconic fara nú með samanlagt 36 prósenta hlut í Arion banka. Kaupþing þarf því að selja að lágmarki sem nemur þriggja prósenta hlut í bankanum innan næstu þriggja mánaða. Samkvæmt heimildum Markaðarins standa áform stjórnenda Taconic Capital hins vegar til þess að auka enn frekar við hlut sinn í Arion banka. Sá sem stýrir umsvifum Taconic Capital hér á landi, en sjóðurinn hóf fyrst að kaupa kröfur á Kaupþing árið 2012, er Bandaríkjamaðurinn Keith Magliana og situr hann meðal annars í tilnefningarnefnd Arion banka. – hae






Fleiri fréttir

Sjá meira


×