Körfubolti

Golden State minnkaði muninn eftir spennutrylli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Curry var geggjaður í nótt.
Curry var geggjaður í nótt. vísir/getty

Ríkjandi NBA-meistarar, Golden State Warriors, eru enn á lífi í úrslitaeinvíginu gegn Toronto Raptors en Warriors unnu fimmta leik liðanna í nótt, 106-105.

Toronto var komið í 3-1 í einvíginu og hefði með sigri á heimavelli í kvöld getað tryggt sér NBA-titilinn í fyrsta sinn en allt kom fyrir ekki.

Það var fínn kraftur í Golden State í fyrsta leikhlutanum og þeir voru sex stigum yfir eftir hann. Þeir voru einnig sex stigum yfir er liðin gengu til búningsherbergja, 62-56.

Heimamenn minnkuðu hægt og rólega metin í síðari hálfleik og komust yfir er fimm mínútur voru eftir af leiknum. Þeir náðu mest sex stiga forystu í leiknum en meistararnir voru ekki hættir.

Stephen Curry og Klay Thompson tóku leikinn í sínar  hendur. Þeir settu fjórar þriggja stiga körfur í röð og það var einmitt þriggja stiga karfa frá Klay Thompson sem breytti stöðunni úr 103-103 í 106-103, Golden State í vil.

Kyle Lowey náði að minnka muninn niður í eitt stig, 106-105, með sniðskoti en nær komust þeir ekki og Golden State því búið að minnka muninn í 3-2.

Stephen Curry var magnaður í liði Golden State. Hann gerði 31 stig en auk þess tók hann átta fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Meistararnir urðu fyrir áfalli í leiknum er Kevin Durant meiddist á hásin.

Í liði Toronto var það Kawhi Leonard, einu sinni sem oftar, var stigahæstur. Hann gerði 26 stig og tók þar að auki tólf fráköst.

Næsti leikur liðanna fer fram á fimmtudaginn í Golden State.
NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.