Körfubolti

Frægustu handaskipti Michael Jordan eiga 28 ára afmæli í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan með bikarinn.
Michael Jordan með bikarinn. Getty/Ken Levine

Júní var góður mánuður fyrir körfuboltaferil Michael Jordan. Hann varð sex sinnum NBA-meistari í þessum sjötta mánuði ársins frá 1991 til 1998.

Það er því hægt að rifja upp mörg skemmtileg og söguleg atvik tengdum Michael Jordan frá þessum tíma.

Frægasta sniðskot Michael Jordan í lokaúrslitum NBA deildarinnar gerðist einmitt á þessum degi fyrir 28 árum eða 5. júní 1991.

Michael Jordan var þá í sínum fyrstu lokaúrslitum á ferlinum og þetta var leikur tvö í einvíginu. Los Angeles Lakers hafði unnið leik eitt á heimavelli Chicago og Michael Jordan og félagar urðu því að vinna leik tvö sem var líka á þeirra heimavelli.

Chicago vann þriðja leikhlutann með tólf stigum, 38-26, og Jordan kórónaði hann með frábærri og heimsfrægri körfu sem má sjá hér fyrir neðan.Jordan talaði sjálfur um það að hann hafi óttast það að Sam Perkins myndi verja skotið sitt og tók því upp á því að skipta um hendi með eftirminnilegum hætti.

Jordan var annars sjóðheitur í þessum leik en hann hitti úr 15 af 18 skotum sínum og eitt af þremur klikkum var eina þriggja stiga skotið sem hann tók í leiknum.

Michael Jordan endaði leikinn með 33 stig, 13 stoðsendingar og 7 fráköst og Chicago fór til Los Angeles í stöðunni 1-1. Bulls liðið vann síðan alla þrjá leikina í Los Angeles og Michael Jordan varð NBA-meistari í fyrsta sinn.
NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.