Handbolti

Janus stórkostlegur er Álaborg tryggði sér gullið í Danmörku

Anton Ingi Leifsson skrifar
Janus var frábær í úrslitakeppninni.
Janus var frábær í úrslitakeppninni. vísir/getty
Álaborg varð danskur meistari í fjórða sinn er liðið vann oddaleikinn gegn GOG, 38-32, er liðin mættust í hreinum úrslitaleik um titilinn í Álaborg í dag.

GOG vann fyrsta leik liðanna en Álaborg jafnaði metin fyrr í vikunni er liðin mættust á heimavelli GOG. Því var allt undir í Álaborg í dag.

Staðan var jöfn 2-2 en þá skildu leiðir. Álaborg komst í 7-4 og 11-6 en leiddu einungis með tveimur mörkum í hálfleik 17-15 eftir mark frá Janusi Daða Smárasyni.

Í síðari hálfeik hafði Álaborg allan tímann tök á leiknum. Þrátt fyrir áhlaup gestana þá náðu heimamenn að standa af sér áhlaupin og unnu að lokum með sex mörkum, 38-32.

Janus Daði Smárason var algjörlega magnaður í liði Álaborgar. Hann skoraði níu mörk úr fjórtán skotum og bætti þar að auki við fjórum stoðsendingum.

Ómar Ingi Magnússon var ekki í leikmannahópi Álaborgar en hann er á meiðslalistanum. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins en liðið varð tvöfaldur meistari á þessari leiktíð því einnig vann liðið bikarinn.

Óðinn Þór Ríkharðsson átti einnig mjög flottan leik fyrir GOG en hann skoraði tíu mörk úr sínum tólf skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×