Innlent

Sendi nektar­myndir af barns­móður sinni á yfir 200 net­föng

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Úr húsnæði Landsréttar í Kópavogi.
Úr húsnæði Landsréttar í Kópavogi.
Lands­réttur staðfesti í gær að karl­maður sem grunaður er um að hafa beitt barns­móður sína kyn­ferðis­legu of­beldi, meðal annars með dreifingu nektar­mynda af henni, skuli sæta tveggja vikna gæslu­varð­haldi.

Maðurinn er grunaður um að hafa sent myndirnar á 235 net­föng og að hafa birt þær á sam­fé­lags­miðlum. Myndirnar á hann meðal annars að hafa sent til fjöl­skyldu konunnar, vina hennar, for­eldra barna í bekk sonar þeirra og fleiri.

Fram kemur í úr­skurðinum að rann­sókn málsins hafi hafist í febrúar þegar konan lagði fram kæru á hendur manninum. Hún lýsti því í skýrslu­tökum að síðast­liðin fjögur ár hefði maðurinn beitt hana miklu and­legu of­beldi, og sagði hann hafa tryllst þegar hún vísaði honum út af heimili sínu. Í kjöl­farið hefði hann byrjað að dreifa um tuttugu nektar­myndum af henni, sparkað í síðu hennar, hellt yfir hana mjólk og slegið son þeirra kinn­hest.

Rann­sókn lög­reglu leiddi í ljós að í febrúar og mars hafi 121 tölvu­póstur verið sendur á 235 mis­munandi net­föng, en talið er að fleiri en einn við­takandi geti verið að baki nokkrum þeirra póst­fanga. Af­rit af meiri­hluta tölvu­póstanna var sent konunni.

Maðurinn hefur neitað að tjá sig við lög­reglu, að öðru leyti en því að hann kannist ekki við net­föngin sem tölvu­póstarnir voru sendir úr. Héraðs­dómur féllst á að rök­studdur grunur væri um að hann hefði gerst sekur um brotin, og taldi ekki úti­lokað að hann gæti tor­veldað rann­sókn málsins, svo sem með því að eyða raf­rænum sönnunar­gögnum, gangi hann laus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×