Handbolti

Ágúst og félagar náðu í oddaleik eftir framlengingu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson í leik með íslenska landsliðinu.
Ágúst Elí Björgvinsson í leik með íslenska landsliðinu. vísir/getty
Ágúst Elí Björgvinsson og félagar í Sävehof tryggðu sér úrslitaleik um Svíþjóðarmeistaratitilinn með sigri á Alingsas í fjórða leik liðanna í úrslitunum.

Ágúst Elí átti ágætan leik í marki Sävehof, varði 14 bolta og var með um 35 prósenta markvörslu. Heimamenn í Sävehof unnu leikinn 32-29 eftir framlengingu.

Heimamenn voru með yfirhöndina nærri allan leikinn, en staðan var 15-12 í hálfleik. Þeir voru með tveggja marka forystu þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum en náðu ekki að halda út, venjulegum leiktíma lauk með 26-26 jafntefli.

Viktor Ottosson skoraði fyrsta mark framlengingarinnar fyrir Sävehof og kom þeim á bragðið. Heimamenn héldu yfirhöndinni út leikinn og jöfnuðu einvígið í 2-2.

Það verður því hreinn og beinn úrslitaleikur um titilinn þegar liðin mætast í oddaleik á fimmtudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×