Viðskipti innlent

Nota vextina til þess að milda höggið

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs
Sú gjörbreyting sem hefur orðið á íslensku hagkerfi á síðustu árum, sem endurspeglast í viðvarandi viðskiptaafgangi við útlönd og umskiptum á erlendri stöðu þjóðarbúsins, gerir Seðlabanka Íslands kleift að bregðast við samdrætti í þjóðarbúskapnum með því að lækka vexti og milda þannig yfirstandandi niðursveiflu hagkerfisins. Hingað til hafa hagsveiflur hérlendis endað með gengisfalli og verðbólgu, líkt og gerðist til að mynda árin 2001 og 2008, en nú bendir fátt til annars en að lendingin verði mjúk.

„Nú er hægt að nýta stýritæki Seðlabankans – vextina – á mun árangursríkari hátt en áður,“ segir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir Seðlabankann hafa nú mun frjálsari hendur til þess að lækka raunvexti þar sem trúverðugleiki bankans og möguleikar hans til viðnáms séu allt aðrir og meiri en þeir hafi verið árin 2001 og 2008.

Í kjölfar falls fjármálakerfisins haustið 2008 voru stýrivextir Seðlabankans hækkaðir í 18 prósent, krónan hríðféll í verði og verðbólga rauk upp í 19 prósent. Í lok uppsveiflunnar árið 2001 fóru vextirnir hæst í 11,4 prósent, verðbólga jókst í tæp níu prósent og gengi krónunnar lækkaði um fimmtung. Nú standa stýrivextirnir hins vegar í fjórum prósentum – eftir hálfs prósentustigs lækkun í síðustu viku – og telja greinendur að þeir lækki enn frekar á næstu mánuðum.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir athyglisvert að vextir hafi farið lækkandi frá því að uppsveiflan í hagkerfinu náði hátindi á árunum 2016 til 2017. Það séu stórtíðindi í efnahagslegum skilningi.

„Hefði einhver nefnt það fyrir fimm til tíu árum að það væri raunhæft að Ísland yrði lágvaxtaland, land með lága vexti og íslenska krónu, þá hefðu flestir spurt viðkomandi hvað honum gengi til,“ segir Konráð.

„En miðað við þróun síðustu ára og stöðuna eins og hún blasir nú við okkur er það orðinn raunhæfur möguleiki,“ bætir hann við.

Valdimar bendir aðspurður á að allar forsendur standi til þess að vextir fari lækkandi hér á landi. Sparnaður hafi aukist mikið og þá sé þjóðin hægt og bítandi að eldast. „Það má kannski orða það þannig að við þurfum ekki á eins miklum vaxtamun við útlönd að halda og áður til þess að laða hingað fjármagn,“ segir Valdimar.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans frá því í liðinni viku var sérstaklega tekið fram að svigrúm peningastefnunnar til þess að mæta samdrætti í þjóðarbúskapnum – en í stað 1,8 prósenta hagvaxtar á þessu ári eins og gert var ráð fyrir í febrúar spáir bankinn nú 0,4 prósenta samdrætti – væri töluvert. Það ætti sérstaklega við ef verðbólga og verðbólguvæntingar héldust við 2,5 prósenta markmið bankans.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri bætti um betur á kynningarfundi í tilefni af vaxtalækkuninni og sagði að í kjölfar þess að skrifað var undir kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í apríl og verðbólguvæntingar lækkuðu hefði svigrúmið aukist til þess að nýta peningastefnuna til þess að mæta efnahagssamdrættinum. „Svo verður bara að koma í ljós hvað það er sem nákvæmlega kemur,“ nefndi hann.

Hófleg gengisveiking

Jón Bjarki segir nokkra þætti auðvelda okkur að takast á við niðursveifluna í hagkerfinu.

„Einn þáttur er sá,“ útskýrir hann, „að í staðinn fyrir verulegt gengisfall er veiking krónunnar enn sem komið er hófleg. Því til viðbótar er smitið frá gengishreyfingunni yfir í verðlag innfluttra vara og þar með verðbólguna almennt með minna móti. Svo virðist sem mörg fyrirtæki hafi gengið eins langt og þeim var unnt í að taka hluta af gengislækkuninni á sig.“

Jón Bjarki bendir jafnframt á að trú á Seðlabankanum og ytri viðnámsþrótti þjóðarbúsins – getu þjóðarinnar til þess að standa af sér mótlæti án þess að krónan falli óhóflega – hafi aukist verulega sem dempi verðlagsáhrifin og geri bankanum einnig auðveldara fyrir að lækka raunvexti til samræmis við hægari snúning hjóla efnahagslífsins án þess að fórna trúverðugleika peningastefnunnar eða missa verðbólguna í hæstu hæðir.

Þá hafi útspil aðila vinnumarkaðarins, þar sem samið hafi verið um laun á hóflegri nótum en margir hafi óttast, hjálpað til.

„Við þetta bætist einnig að skuldastaða heimila, fyrirtækja og hins opinbera er gjörbreytt,“ segir Jón Bjarki.

Íslendingar hafi lært mikið af síðustu niðursveiflu og breytt ýmsu til batnaðar sem við njótum nú ávaxtanna af.

„Það þýðir þá að Seðlabankinn getur farið lægra með raunvextina en annars væri. Seðlabankastjóri ýjaði einmitt að því á kynningarfundi í síðustu viku að oft væri tekin stærri sveifla í skammtímaraunvöxtum en endilega væri hægt að reikna út frá líkönum til þess að viðbrögðin skiluðu sér þá fyrr.

Bankinn hefur miklu frjálsari hendur til þess nú því trúverðugleiki hans og möguleikar til viðnáms eru allt aðrir og meiri en þeir voru bæði árin 2001 og 2008,“ nefnir Jón Bjarki.

Gerist ekki á einni nóttu

Valdimar tekur í svipaðan streng og bendir á að umbreyting hagkerfisins á síðustu árum hafi stuðlað að því að Ísland sé að færast nær öðrum ríkjum þegar komi að vaxtastiginu, þó svo að landið verði ekki lágvaxtaland á einni nóttu.

„Það er þessi gjörbreyting á hagkerfinu, sem er nú með jákvæða erlenda stöðu, sem gerir okkur kleift að takast á við samdrátt í hag­kerfinu á allt annan hátt en við höfum áður gert,“ segir hann og vísar til þess að Seðlabankinn geti nú, ólíkt því sem áður var, notað peninga­stefnuna til að milda höggið.

„Bankinn þarf þannig ekki að hafa áhyggjur af því að hann sé að veikja krónuna með því að lækka vexti, eins og stundum hefur verið raunin. Hagstjórnin verður eðlilegri, ef svo má segja,“ bætir Valdimar við.

Konráð segir flest benda til þess að lending hagkerfisins verði mjúk. Í það minnsta mýkri en við höfum átt að venjast. „Verðbólga hefur vissulega aðeins aukist og síðan eigum við eftir að sjá betur á næstu mánuðum áhrifin af samdrætti í ferðaþjónustunni.

En áhrifin verða ekki eins mikil og þekkist sögulega þar sem við höfum horft upp á verðbólguna rjúka upp og gengið falla um tugi prósenta. Það er ekkert slíkt í kortunum nema eitthvað óvænt komi upp. Staðan er heilt yfir betri en nokkru sinni áður,“ nefnir Konráð.

Raunvextir hafa lækkað um allan heim undanfarin ár og áratugi og er Ísland þar ekki undanskilið. Í vorhefti Peningamála, sem Seðlabankinn gaf út samhliða því að hann tilkynnti um vaxtalækkunina, er þó bent á að mismunur raunvaxta hér og í helstu viðskiptalöndum Íslands hafi minnkað að undanförnu – um 1,2 prósentustig frá öðrum fjórðungi síðasta árs – og hafi ekki verið minni síðan á seinni hluta ársins 2013.

Í Peningamálum kemur jafnframt fram að ávöxtunarkrafa á lengstu óverðtryggðu ríkisskuldabréfunum hafi lækkað um tvö prósent frá því að krafan var hæst síðasta haust og sé að jafnaði í kringum fjögur prósent. Langtímavextir hafi ekki verið svo lágir frá því að vaxtamyndun var gefin frjáls á níunda áratug síðustu aldar. Sömu sögu er að segja af verðtryggðum langtímavöxtum sem eru í sögulegu lágmarki.

Áhrifin smitast til Íslands

Konráð bendir á að þrátt fyrir spár um hækkandi stýrivexti á stærstu myntsvæðum heims hafi vextirnir haldist lágir og ekki hækkað að ráði nema helst í Bandaríkjunum.

„Og á meðan vextir annars staðar í heiminum eru svona lágir eins og raun ber vitni ættu að vera forsendur til þess að ná þeim niður hér á landi. Áhrifin smitast að miklu leyti til Íslands.“

Hann nefnir að gjörbreytt efnahagsstaða landsins, sem sé orðið nettó lánveitandi við útlönd, með nær engar erlendar skuldir og myndarlegan gjaldeyrisforða, hjálpi verulega til við að milda sveiflur og gera hagkerfið betur í stakk búið til þess að takast á við áföll. Það stuðli að lægra vaxtastigi.

„Seðlabankinn er nú farinn að geta gert það sem honum hefur lengi verið legið á hálsi fyrir að hafa ekki gert, að lækka vexti í niðursveiflu og örva þannig efnahagslífið. Það eru mikil tíðindi,“ segir Konráð.

Hann tekur þó fram að lágir vextir séu ekki markmið í sjálfu sér. Endanlegt markmið hljóti að felast í stöðugri verðbólgu og heilbrigðu efnahagslífi sem birtist svo í lægra vaxtastigi.

„Ég vona að við lendum ekki í sömu vandræðum og mörg ríki í Evrópu hafa þurft að glíma við, þar sem vaxtastigið hefur verið við eða undir núlli. Svo lágt vaxtastig er ekki æskilegt til lengri tíma, heldur er ástandið víða beinlínis farið að valda vandræðum.

En það að þetta hvarfli að okkur – hættan af of lágum eða jafnvel neikvæðum raunvöxtum – segir allt sem segja þarf um gjörbreytta stöðu Íslands,“ segir Konráð.

Jón Bjarki segist telja að vaxtastigið hér á landi verði, þegar fram í sækir, líkara vaxtastiginu í öðrum löndum en áður hefur verið.

„Ein ástæðan er sú að Seðlabankinn hefur meiri möguleika á því að varðveita trúverðugleika peningastefnunnar en bankinn hefur sjálfur sagt að baráttan við að ná þessum trúverðugleika, sem var mjög ábótavant fyrir nokkrum árum, hafi að hluta skýrt þennan mikla vaxta­mun við útlönd.

Önnur ástæða, sem kemur ekki til af góðu, er sú að íslenska hagkerfið er einfaldlega að fara að vaxa hægar og í líkari takti við önnur vestræn hagkerfi.

Ég tel þó að við séum ekki að fara að horfa upp á neikvæða raunvexti, nema þá rétt í sjónhendingu, af því að horfur hér eru töluvert betri en almennt gengur og gerist til dæmis á evrusvæðinu, þar sem raunvöxtum hefur verið haldið neikvæðum til þess að ýta undir efnahagslífið. Við erum ekki í þeirri stöðu. Vaxtastigið hér á landi verður væntanlega í hærra lagi í fyrirsjáanlegri framtíð en ég tel að það verði mun nær því sem gengur og gerist í heiminum en við höfum séð síðustu áratugina,“ segir Jón Bjarki.

Hann bendir á að þróun raunvaxta hér á landi hafi í grófum dráttum fylgt þróuninni á alþjóðavísu undanfarna áratugi. Raunvextir hér hafi að jafnaði verið einu og hálfu til tveimur prósentustigum hærri en í samanburðarríkjum en að þróun vaxtanna hafi verið svipuð þar sem langtímaleitnin hafi verið til lækkunar.

Endurspeglar vanda

„Ég bæði tel og vona,“ segir Jón Bjarki, „að vaxtastigið hér fari ekki jafn langt niður og víða í Evrópu, þar sem það er sums staðar neikvætt, því það endurspeglar bara efnahagsleg vandræði. Það er betra að hafa innistæðu fyrir jákvæðum raunvöxtum en að þeir eigi engu að síður eftir að vera að jafnaði talsvert lægri en verið hefur.“

Í áðurnefndri yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar er tekið fram að þótt nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði feli í sér myndarlegar launahækkanir hafi niðurstaða þeirra verið í betra samræmi við verðbólgumarkmiðið en margir hafi búist við. Verðbólguvæntingar hafi því lækkað á ný en þær hækkuðu umtalsvert þegar leið á síðasta ár og harður tónn var í forkólfum verkalýðshreyfingarinnar.

Aðspurður segir Valdimar að kjarasamningarnir hafi auðveldað Seðlabankanum að lækka vexti. Góð lending í viðræðunum hafi skipt töluverðu máli.

„Það hafði mikla þýðingu að samið var um hóflegar launahækkanir sem eru ekki umfram það sem hagkerfið þolir. Vissulega koma launahækkanirnar harkalega niður á sumum fyrirtækjum, sér í lagi þeim sem eru á sama tíma að takast á við fækkun ferðamanna, en niðurstaðan fyrir heildina virðist hafa verið innan marka þess svigrúms sem er fyrir hendi þannig að Seðlabankinn getur stutt á móti með lækkun vaxta,“ segir hann.

Valdimar nefnir að ef vaxtalækkanirnar eigi að skila sér almennilega til heimila og fyrirtækja þurfi Seðlabankinn og stjórnvöld að skoða leiðir til þess að draga úr kostnaði bankakerfisins. Stífar eiginfjárkröfur og há opinber gjöld leiði til þess að bankarnir þurfi að vera með mikinn vaxtamun á innlánum og útlánum.

Tækifæri sé fyrir stjórnvöld til að minnka vaxtamuninn og stuðla þannig að lægri vöxtum.



vísir/anton brink





Fleiri fréttir

Sjá meira


×