Viðskipti innlent

Selji sig niður fyrir þriðjungshlut

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Kaupþing og Taconic eiga samanlagt 36 prósent í Arion.
Kaupþing og Taconic eiga samanlagt 36 prósent í Arion. Fréttablaðið/Eyþór
Fjármálaeftirlitið hefur skyldað Kaupskil, dótturfélag Kaupþings, og bandaríska vogunarsjóðinn Taconic Capital til þess að minnka samanlagðan eignarhlut sinn í Arion banka niður fyrir 33 prósent fyrir 16. september næstkomandi. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Kaupskila.

Kaupskil og Taconic fara nú með samanlagt 36 prósenta hlut í Arion banka en til samanburðar var eignarhlutur félaganna tæplega 43 prósent í lok síðasta árs.

FME lítur svo á að Kaupskil og Taconic séu í samstarfi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki – vogunarsjóðurinn er stærsti hluthafi Kaupþings – og hefur því takmarkað heildaratkvæðisrétt félaganna tveggja við 33 prósenta hlut.

Kaupþing, sem er stærsti hluthafi Arion banka, gekk í síðasta mánuði frá sölu á um fimmtán prósenta hlut í bankanum og heldur nú á fimmtungshlut í honum. Þar af seldi félagið tæplega fimm prósenta hlut til Taconic fyrir um 6,5 milljarða en vogunarsjóðurinn er í kjölfar kaupanna næst stærsti hluthafi bankans með sextán prósenta hlut. - kij

Taconic Capital kom fyrst inn í hluthafahóp Arion banka í mars árið 2017 og var síðar sama ár metinn hæfur af Fjármálaeftirlitinu til þess að fara með virkan eignarhlut í bankanum sem nemur allt að 33 prósentum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×