Handbolti

Ólafur í vandræðum, sigur hjá Stefáni og dramatík í Austurríki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stefán átti flottan leik í kvöld.
Stefán átti flottan leik í kvöld. vísir/getty
Íslendingaliðið West Wien er lent 1-0 undir gegn HC Hard í undanúrslitum austurríska handboltans eftir að hafa tapað fyrsta leik liðanna, 26-25, eftir framlengdan leik.

Vinna þarf tvo leiki til þess að tryggja sér í úrslitaviðureignina svo Vínar-liðið þarf að ná í sigur á heimavelli á mánudaginn kemur.

Viggó Kristjánsson var markahæstur hjá West Wien með sex mörk en Guðmundur Hólmar Helgason bætti við fimm mörkum.

Ólafur Gústafsson og félagar í KIF Kolding eru ekki í góðum málum eftir fyrri umspilsleikinn gegn TM Tønder um laust sæti í dönsku úrvalsdeildinni á næstu lektíð.

Kolding tapaði fyrstu rimmu liðanna á heimavelli í kvöld, 28-25, en liðið sem er fyrr til þess að vinna tvo leiki spilar í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Ólafur var markahæsti leikmaður Kolding með fimm mörk ásamt því að standa vaktina í vörninni. KIF þarf því að vinna næsta leik liðanna á þriðjudaginn kemur.

Félagi Ólafs úr Hafnarfirðinum, Stefán Rafn Sigurmannsson, var hins vegar í sigurliði í Ungverjalandi er Pick Szeged vann 37-29 sigur á Ceglédi í deildinni þar í landi.

Stefán og félagar eru orðnir ungverskir meistarar en Hafnfirðingurinn skoraði fimm mörk í leiknum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×