Skoðun

Spjall

Haukur Örn Birgisson skrifar
Við lifum á tímum stafrænna samskipta. Það er frábært að mörgu leyti en hefur aukaverkanir, eins og margt annað. Í viðskiptum getur fólk fundað, skrifast á og jafnvel undirritað samninga í gegnum tölvubúnað. Þeir námfúsu geta nælt sér í heilu háskólagráðurnar án þess að stíga fæti inn í skólabyggingu og ástvinir geta viðhaldið tengslum þrátt fyrir að búa í sitthvoru heimshorninu.

En á sama tíma og við nýtum okkur kosti stafrænna samskipta þá fer okkur aftur í mannlegum samskiptum. Við erum hætt að hittast jafn mikið og við gerðum. Tala saman. Tjáningin fer nú fram með þumlum, fýluköllum, hlægiköllum og emoji-táknum. Merking raunverulegra orða tapast í stafrænni þýðingu og svipbrigðin eru falin á bak við svarta spegla snjallsímanna.

Við glötum smátt og smátt hæfileikanum til þess að eiga spjall um ekki neitt, sem eru oft skemmtilegustu spjöllin. Þeir sem stunda heitu pottana eru reyndar öruggir með að halda í hæfileikann.

Ég hitti prófessor á þessu sviði í gær, þegar ég ferðaðist með leigubíl að Keflavíkurflugvelli. Bílstjórinn kunni spjalllistina betur en flestir og það var augljóst að samfélagsmiðlunum hefur ekki tekist að eyðileggja hann. Á hálftíma ferðalagi ræddi hann við mig um allt frá gagnaverum á Suðurnesjum til barnanna minna. Frá Íslendingasögunum til lélegrar lögfræðiþjónustu.

Þar sem ég bý stærstan hluta ársins í hinum stafræna heimi þá bar hann samræðurnar uppi. Ég svaraði bara. Það kom aldrei dauð stund þar sem þögnin réði ríkjum. Þetta var yndisleg bílferð og nærandi. Hann Egill ætti að halda námskeið í spjalli fyrir okkur hin og námskeiðið ætti að vera skyldufag, sem því miður endar líklegast á því að vera kennt í fjarnámi.
Skoðun

Skoðun

Látum kné fylgja kviði

Íris E. Gísladóttir,Magnea Gná Jóhannsdóttir ,Ágúst Guðjónsson,Unnur Þöll Benediktsdóttir,Jóhann Arinbjarnarson,Knútur Garðarson,Guðjón Þór Jósefsson,Alex B. Stefánsson,Björn Ívar Björnsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.