Handbolti

Alfreð getur náð í titil í síðasta Evrópuleiknum með Kiel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð hættir með Kiel eftir tímabilið.
Alfreð hættir með Kiel eftir tímabilið. vísir/getty

Alfreð Gíslason stýrir Kiel í síðasta sinn í Evrópuleik þegar liðið mætir Füchse Berlin í úrslitaleik EHF-bikarsins í kvöld. Leikið er í Sparkassen-Arena í Kiel.

Strákarnir hans Alfreðs tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á Team Tvis Holstebro, 26-32, í gær. Füchse Berlin vann Porto, 24-20, í hinum undanúrslitaleiknum. Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk fyrir Berlínarrefina.

Sem kunnugt er hættir Alfreð sem þjálfari Kiel í sumar. Hann hefur verið hjá félaginu síðan 2008.

Kiel varð þýskur bikarmeistari í síðasta mánuði og á enn möguleika á að vinna þýska meistaratitilinn. Alfreð getur því kvatt Kiel með þremur titlum. Kiel er tveimur stigum á eftir Flensburg þegar þrjár umferðir eru eftir af þýsku úrvalsdeildinni.

Kiel hefur þrisvar sinnum unnið EHF-bikarinn; 1998, 2002 og 2004. Füchse Berlin vann keppnina í fyrra og 2015 undir stjórn Dags Sigurðssonar.

Alfreð hefur áður unnið EHF-bikarinn en hann stýrði Magdeburg til sigurs í keppninni 2001. Ólafur Stefánsson lék með Magdeburg á þeim tíma. Ári síðar vann liðið Meistaradeild Evrópu undir stjórn Alfreðs.

Akureyringurinn hefur alls unnið fjóra Evróputitla sem þjálfari og getur bætt þeim fimmta við í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.