Viðskipti innlent

Verðmat Capacent á Skeljungi lækkar lítillega

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hlutabréf í Skeljungi hafa hækkað um 12 prósent á árinu.
Hlutabréf í Skeljungi hafa hækkað um 12 prósent á árinu. Fréttablaðið/GVA
Greinendur Capacent hafa lækkað verðmat sitt á Skeljungi um þrjú prósent og meta nú gengi hlutabréfa í olíufélaginu á 8,1 krónu á hlut. Til samanburðar stóð gengi bréfanna í 8,04 krónum á hlut þegar markaðir lokuðu síðdegis í gær.

Lakari sjóðsstaða Skeljungs og breytt rekstrarspá sérfræðinga Capacent fyrir þetta ár skýra lægra verðmat ráðgjafafyrirtækisins en á móti vegur að hluta lægri fjármagnskostnaður olíufélagsins.

Í verðmati Capacent, sem Markaðurinn hefur undir höndum, er bent á að allt hafi unnið með Skeljungi í fyrra þegar félagið skilaði metafkomu. Olíuverð hafi hækkað auk þess sem umsvif í íslenska hagkerfinu hafi verið mikil og fjöldi ferðamanna í hæstu hæðum.

Greinendur Capacent gera ráð fyrir að EBITDA Skeljungs - afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - verði jákvæð um 3.153 milljónir króna í ár en til samanburðar gera áætlanir stjórnenda olíufélagsins ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 3.000 til 3.200 milljónir króna.

Er meðal annars tekið fram í verðmatinu að stjórnendur Skeljungs hafi hagrætt umtalsvert í rekstrinum sem sýni sig meðal annars í því að launakostnaður hafi dregist saman um 130 milljónir króna eða sex prósent í fyrra. Samfara því að framlegð hafi aukist meira en kostnaður hafi rekstrarhagnaður sem hlutfall af framlegð farið úr 24,9 prósentum í 30,4 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×