Körfubolti

Ingi Þór bætti metið yfir lengstu sigurtíð þjálfara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson kyssir Íslandsbikarinn sem hann fékk fyrst í fangið fyrir 19 árum síðan.
Ingi Þór Steinþórsson kyssir Íslandsbikarinn sem hann fékk fyrst í fangið fyrir 19 árum síðan. Vísir/Daníel
Ingi Þór Steinþórsson gerði KR að Íslandsmeisturum í körfubolta á laugardaginn og setti þar með nýtt met.

Þá voru liðin nítján ár síðan að KR varð fyrst Íslandsmeistari undir stjórn Inga Þórs. Ingi Þór gerði KR að meisturum á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari í Vesturbænum tímabilið 1999 til 2000.

Síðan eru liðin næstum því tveir áratugir en líkt og tímabilið 1999-2000 þá var þetta fyrsta tímabil þessa KR-liðs undir stjórn Inga Þórs en hann tók við liðinu síðasta sumar. Finnur Freyr Stefánsson hafði gert KR að Íslandsmeisturum fimm ár á undan.

Ingi Þór bætti með þessu met ÍR-ingsins Einars Ólafssonar sem gerði ÍR sjö sinnum að meisturum á tólf árum frá 1963 til 1975. Fyrsta tímabilið stýrði Einar Ólafsson ÍR-liðinu ásamt Helga Jóhannssyni.

Helgi Jóhannsson gerði ÍR átta sinnum að Íslandsmeisturum og er sá þjálfari sem hefur unnið oftast Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta.

Þegar kemur að titlum í úrslitakeppni þá var Ingi Þór að bæta met Sigurðar Ingimundarsonar sem gerði Keflavík að meisturum með ellefu ára millibili en Sigurður vann sinn fyrsta titil með Keflavík 1997 og þann fimmta vorið 2008.

Lengstu sigurtíðir þjálfara í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta:

19 ár - Ingi Þór Steinþórsson (KR 2000 og KR 2019)

12 ár - Einar Ólafsson (ÍR 1963 - ÍR 1975)

11 ár - Sigurður Ingimundarson (Keflavík 1997 - Keflavík 2008)

10 ár - Helgi Jóhannsson (ÍR 1954 - ÍR 1964)

8 ár - Valur Ingimundarson (Njarðvík 1987 - Njarðvík 1995)

7 ár - Friðrik Ingi Rúnarsson (Njarðvík 1991 - Njarðvík 1998)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×