Tónlist

Nanna innblásin af kvenleika við gerð nýju plötunnar

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Ný plata Of Monsters And Men kemur út þann 26. júlí.
Ný plata Of Monsters And Men kemur út þann 26. júlí.
Hljómsveitin Of Monsters And Men mun gefa út sína þriðju breiðskífu þann 26. júlí næstkomandi og mun hún bera heitið Fever Dream. Hljómsveitin gaf út lag í vikunni sem mun vera á plötunni sem ber nafnið Alligator.

Í viðtali við NME sagði Nanna Bryndís Hilmarsdóttir nýju plötuna öðruvísi en þær fyrri, en hún hafi verið orðin þreytt á því hvernig hún hafði áður samið lögin, „venjulega samdi ég lögin á kassagítar og Raggi [gítarleikari hljómsveitarinnar] bætti svo kjöti á beinin. Ég var bara orðin þreytt á því. Mig vantaði eitthvað nýtt og krefjandi. Í hvert skipti sem ég tók upp gítar fannst mér ég vita á hverju ég ætti von.“

„Í þetta skiptið samdi ég mun meira í tölvunni og þreifaði fyrir mér þar.“

Hljómsveitin vann að plötunni með upptökustjóranum Rich Costey, en hann vann einnig með þeim að annarri breiðskífu þeirra, Beneath The Skin, en hann hefur unnið með hljómsveitum á borð við Muse, Rage Ageinst The Mazhine og Death Cab For Cutie.

Nanna segir plötuna allt öðruvísi en þær fyrri og þá sérstaklega Beneath The Skin, sem hafi verið mjög dimm en Fever Dream sé mun meira upplífgandi og poppaðri þó hún hafi auðvitað sínar dökku hliðar.

„Við erum tvö sem semjum texta, ég og Raggi, og við skrifum frá mjög ólíkum sjónarhornum. Í þetta skiptið vildum við segja okkar sögur. Vegna þess að ég skrifaði meira ein eru sum lögin með kvenlegri sjónarhorn. Þau takast á við það hvernig það er að vera kona. Ég leyfði sjálfri mér að skoða þá hlið í þetta skiptið.“

„Ég lærði margt við gerð þessarar plötu. Mér finnst ég hafa þurft að treysta meira á sjálfa mig en ég hafði þurft að gera áður. Maður finnur það þegar maður er fastur í sama farinu. Það er svo auðvelt að festast í þægindarammanum  og það tekur á að ögra sjálfum sér, en það er þess virði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×