Viðskipti innlent

Skoða riftun á um 550 milljóna greiðslu

Hörður Ægisson skrifar
Skuldbreyting Arion banka nam nærri 10 prósentum af heildarstærð skuldabréfaútgáfu WOW air síðasta haust.
Skuldbreyting Arion banka nam nærri 10 prósentum af heildarstærð skuldabréfaútgáfu WOW air síðasta haust. Fréttablaðið/Eyþór

Yfirdráttarlán sem WOW air var með hjá Arion banka að fjárhæð um fimm milljónir Bandaríkjadala var gert upp í fyrra og þess í stað eignaðist bankinn skuldabréf að sömu fjárhæð á flugfélagið í skuldabréfaútboði þess sem lauk síðastliðið haust.

Samkvæmt heimildum Markaðarins eru skiptastjórar þrotabús WOW air með það til skoðunar hvort tilefni sé til að rifta þeirri ráðstöfun en Arion banki og WOW air höfðu gert með sér samkomulag í aðdraganda skuldabréfaútboðsins um að umræddir fjármunir, jafnvirði um 550 milljóna króna á þáverandi gengi, sem bankinn fjárfesti fyrir í útboðinu færu í að greiða upp yfirdráttarlán félagsins hjá bankanum.

Ráðgjafarfyrirtækið Deloitte var nýlega fengið til að vera þrotabúinu til aðstoðar, samkvæmt heimildum Markaðarins, meðal annars til að leggja mat á hvort grundvöllur sé fyrir því að rifta þeim greiðslum sem fóru til Arion banka í tengslum við þátttöku hans í skuldabréfaútboðinu. Engin ákvörðun þess efnis hefur hins vegar enn verið tekin.

Arion banki lagði félaginu því ekki til neitt nýtt fjármagn í útboðinu heldur var í reynd að ræða um skuldbreytingu sem nam nærri tíu prósentum af heildarstærð skuldabréfaútgáfu flugfélagsins. Talið er að minna en helmingur þeirrar fjárhæðar sem safnaðist í 50 milljóna evra skuldabréfaútboði WOW air í september á síðasta ári hafi verið nýir fjármunir sem fengust frá fjárfestum til að bæta afar bágborna lausafjárstöðu félagsins.

Verulegrar óánægju gætir á meðal margra stórra fjárfesta sem raunverulega lögðu WOW air til nýtt fjármagn í útboðinu, meðal annars bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Eaton Vance og íslenska fjármálafyrirtækið GAMMA Capital Management, enda hefðu þeir að líkindum ekki gert það ef fyrir hefði legið að stærstur hluti fjárhæðarinnar sem þar safnaðist hafi aðeins verið umbreyting á kröfum í skuldabréf. Engar slíkar upplýsingar hafi verið veittar í fjárfestakynningum né þegar greint var frá niðurstöðum útboðsins.

Norska verðbréfafyrirtækið Pareto Securities hafði umsjón með útboðinu ásamt Arctica Finance. Ólíklegt er talið að nokkuð muni greiðast út úr þrotabúi WOW air upp í kröfur þeirra sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu, sem og annarra almennra kröfuhafa félagsins.

Samkvæmt heimildum Markaðarins vilja skuldabréfaeigendur láta reyna á ábyrgðartryggingar stjórnenda WOW air, vegna mögulegrar persónulegrar skaðabótaskyldu sem þeir kunni að hafa bakað að sér, á grundvelli þess að þeir hafi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins og eins framkvæmd skuldabréfaútboðsins. Þannig hefur fulltrúi skuldabréfaeigenda óskað eftir því að skiptastjórar WOW air veiti þeim upplýsingar um skilmála ábyrgðartrygginga stjórnenda flugfélagsins. Við þeirri beiðni hefur þrotabúið ekki enn getað orðið þar sem erlent tryggingafélag, sem WOW air hafði keypt stjórnendatryggingar af, hefur lagst gegn því að afhenda þau gögn sem óskað er eftir.

WOW air skuldaði samtals rúmlega 20 milljarða króna í lok febrúar, einum mánuði áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta, en stærstu kröfuhafar félagsins eru flugvélaleigurnar Air Lease Corp­oration og Avolon, Isavia og Arion banki.

Arion banki, sem var viðskiptabanki WOW air, hefur ekki viljað veita upplýsingar um það hve mikið bankinn hefur fært niður af skuldum flugfélagsins við hann. Heildarskuldbinding félagsins við bankann nam um 1,6 milljörðum. Í fjárfestakynningu vegna uppgjörs Arion banka fyrir fjórða fjórðung síðasta árs var tekið fram að skuldabréf tengd flugfélögum hefðu verið færð niður um 360 milljónir króna á fjórðungnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
HEIMA
4,27
1
458
SIMINN
2,25
25
930.473
BRIM
1,39
2
349
MAREL
1,38
24
571.432
REITIR
1,22
3
123.480

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
FESTI
-1,59
3
186.188
TM
-0,63
1
712
KVIKA
0
4
5.881
ICEAIR
0
15
58.432
EIK
0
2
51.510
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.