Viðskipti erlent

Bretar gefa grænt ljós á 5G kerfi Huawei

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Í FT kemur fram að ákvörðun Þjóðaröryggisráðs Bretlands um að leyfa Huawei að taka þátt í uppbyggingu kerfanna hafi verið tekin einróma.
Í FT kemur fram að ákvörðun Þjóðaröryggisráðs Bretlands um að leyfa Huawei að taka þátt í uppbyggingu kerfanna hafi verið tekin einróma. Nordicphotos/Getty
Theresa May forsætisráðherra Bretlands og meðráðherrar hennar hafa heimilað kínverska fjarskiptarisanum Huawei að taka þátt í uppbyggingu á fimmtu kynslóðar farsímakerfum (5G) í Bretlandi þrátt fyrir varnaðarorð stjórnvalda í Bandaríkjunum um að það gæti stefnt samvinnu ríkjanna í öryggis- og varnarmálum í uppnám.

Ákvörðunin var tekin af Þjóðaröryggisráði Bretlands í gær að því er fram kemur í Financial Times. Ákvörðun um að heimila Huawei að taka þátt í upppbyggingu á 5G kerfum á Bretlandseyjum var tekin þrátt fyrir að Gavin Williamson, varnarmálaráðherra, hafi lýst áhyggjum af áhrifum þess á samband Breta við stjórnvöld í Washington.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.AP/Bilal Hussein
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í febrúar að bandarísk stjórnvöld gætu ekki deilt upplýsingum með ríkjum sem heimiluðu Huawei að taka þátt í uppbyggingu á fimmtu kynslóðar farsímakerfum. Embættismenn vestanhafs hafa lengi þrýst á breska kollega sína að hafna Huawei sem birgi fyrir uppbygginu á 5G farsímakerfum.

Ekki borið skugga á samskipti Bretlands og Kína

Bretland er hluti af „Five Eyes“ öryggisbandalaginu ásamt Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Á meðan bæði Ástralir og Nýsjálendingar hafa samþykkt að útiloka Huawei hafa Bretar alltaf verið fremur opnir. Þá hefur ekki borið skugga á diplómatísk samskipti Breta og Kínverja en Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, fer á næstunni til Kína til að styðja við þátttöku Breta í samgönguáætlun kínverskra stjórnvalda (Belt and Road Initiative).

Í FT kemur fram að ákvörðun Þjóðaröryggisráðs Bretlands um að leyfa Huawei að taka þátt í uppbyggingu kerfanna hafi verið tekin einróma. Ákvörðunin felur hins vegar í sér að Huawei mun ekki koma nálægt svokölluðum miðlægum kerfum eða kjarnakerfum en það eru þau kerfi sem geyma viðkvæmar upplýsingar eins og persónuupplýsingar notenda og greiðsluupplýsingar þeirra. Annar búnaður, sem Huawei getur orðið birgir fyrir eru loftnet, símstöðvar, ýmis fjarskiptavirki og sendingarbúnaður. Upplýsingar streyma í gegnum þessar tegundir búnaðar en eru ekki vistaðar þar og þar með er ekki talin hætta á því að upplýsingunum verði miðlað til óviðkomandi aðila.

Theresa May hefur gefið grænt ljós á 5G kerfi Huawei.Vísir/Getty
Í janúar á þessu ári gaf bandaríska dómsmálaráðuneytið út ákæru á hendur Huawei fyrir stórfelldan hugverkaþjófnað og brot á viðskiptaþvingunum gagnvart Íran. Í kjölfarið tók Vodafone Group í Evrópu ákvörðun um að setja kaup á búnaði frá Huawei í biðstöðu. Ákvörðunin gæti haft áhrif á uppbyggingu á 5G kerfum hér á landi eins og greint hefur verið frá.

Skylt að deila upplýsingum um netöryggi

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað hins vegar í mars síðastliðnum að verða ekki við kröfum bandarískra stjórnvalda um að útiloka Huawei frá uppbyggingu á 5G farsímakerfum í aðildarríkjum ESB. Aðildarríkjunum verður gert skylt að deila upplýsingum sín á milli um netöryggisógnir við uppbyggingu á 5G kerfum og þannig móta stefnu um hvernig eigi að takast á við slíkar ógnir.

Huawei er stærsti birgir í heiminum á sviði farsímakerfa. Þá er fyrirtækið næstsöluhæsti framleiðandi snjallsíma á heimsvísu á eftir Samsung. Forsvarsmenn Huawei hafa ávallt hafnað því að fyrirtækinu sé í reynd stjórnað af kínverskum stjórnvöldum og vísað því á bug að hægt sé að nota búnað fyrirtækisins við njósnir. Þegar ákvörðun Þjóðaröryggisráðs Bretlands lá fyrir lét talsmaður Huawei hafa eftir sér við FT að bresk fyrirtæki og neytendur myndu nú njóta aðgangs að hröðustu og áreiðanlegustu farsímakerfunum. Þá væri ánægjulegt að stjórnvöld í Bretlandi nálguðust ákvarðanir sínar um mikilvæg mál út frá staðreyndum. 


Tengdar fréttir

CIA sakar Huawei um njósnir

Leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur sakað Huawei um að þyggja fjármagn frá undirstofnunum varnarmálaráðuneytis Kína.

Ákæra á hendur Huawei gæti tafið uppbyggingu 5G kerfa

Vodafone Group í Evrópu hefur sett kaup á búnaði frá kínverska tæknifyrirtækinu Huawei í biðstöðu eftir að bandaríska dómsmálaráðuneytið höfðaði sakamál á hendur fyrirtækinu fyrir stórfelldan hugverkaþjófnað og brot á viðskiptaþvingunum gagnvart Íran. Ákvörðunin gæti haft áhrif á uppbyggingu á 5G kerfum hér á landi.

Kínverskur risi í klandri

Bandaríkin standa fyrir samstilltu átaki gegn kínverska tæknirisanum Huawei. Kínverjarnir eru sakaðir um njósnir fyrir hið opinbera, brot á viðskiptaþvingunum og hugverkaþjófnað. Þeir neita þó alfarið sök og stjórnvöld í Kína segja málið einfaldlega pólitískt. Það kemur á versta tíma fyrir Huawei sem tekur nú þátt í 5G-bylgjunni.

Huawei stefnir Bandaríkjastjórn vegna banns

Bandarísk stjórnvöld bönnuðu alríkisstofnunum að nota búnað kínverska tæknirisans. Fyrirtækið telur lagaákvæði sem bannið byggir á stangast á við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Huawei neitaði alfarið sök fyrir dómi

James Cole, lögmaður kínverska tæknirisans Huawei, sagði fyrirtækið alfarið saklaust þegar þrettán liða ákæra bandaríska dómsmálaráðuneytisins fór fyrir alríkisdómstól í New York í gær.

Huawei fagnar afstöðu ESB

Ríkjum Evrópusambandsins verður gert skylt að deila gögnum sín á milli um netöryggisógnir við uppbyggingu 5G-farsímanetkerfis og þannig móta stefnu í hvernig á að takast á við slíkar ógnir fyrir lok árs.

Huawei kynnti enn dýrari samlokusíma

Tæpri viku eftir að Samsung reið á vaðið hefur kínverska tæknifyrirtækið Huawei kynnt sinn eigin samanbrjótanlegan snjallsíma.

Setja kaup á frekari búnaði frá Huawei í biðstöðu

Vodafone Group hefur sett kaup á frekari búnaði frá Huawei í biðstöðu eftir að bandaríska dómsmálaráðuneytið höfðaði sakamál á hendur fyrirtækinu fyrir stórfelldan hugverkaþjófnað og brot á viðskiptaþvingunum gagnvart Íran. Þá hefur BT Group fjarlægt búnað Huawei úr farsímakerfum sínum í Bretlandi.

Versnandi samband Kanada og Kína

Yfirvöld í Kína hafa ákært Kanadamennina Michael Kovrig, fyrrverandi erindreka, og Michael Spavor athafnamann fyrir njósnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×