Viðskipti innlent

RÚV leitar að framleiðanda fyrir Skaupið

Sylvía Hall skrifar
Jón Gnarr og Katla Margrét í eftirminnilegu atriði í Skaupi síðasta árs.
Jón Gnarr og Katla Margrét í eftirminnilegu atriði í Skaupi síðasta árs. RÚV
Ríkisútvarpið auglýsir eftir framleiðanda fyrir Áramótaskaupið í ár en sá framleiðandi sem fær verkefnið í hendur fær 34 milljónir króna frá RÚV til að standa straum af kostnaði við framleiðslu verksins.

Í auglýsingu á vef RÚV segir að áhersla sé lögð á að fjölbreyttur hópur komi að þróun og framleiðslu Áramótaskaupsins enda sé litið svo á að Skaupið sé mikilvægur endapunktur sjónvarpsársins og ómissandi liður í hátíðahöldum Íslendinga um áramót.

Þeir sem hafa áhuga á verkefninu þurfa að senda inn tillögu sem skal innihalda heildræna sýn á verkefnið, ítarlega lýsingu á efnistökum og nálgun í handriti, útfærslu á umgjörð, heildarsvip, uppbyggingu eða sérstöku þema og að lokum upplýsingar um lykilstarfsmenn og/eða tillögur að þeim.

Krafa er gerð um framúrskarandi gæði og hugmyndaauðgi en gert er ráð fyrir því að Skaupið verði 50 til 55 mínútur að lengd.  

Áramótaskaupið hefur unnið til verðlauna á Edduverðlaununum tvö ár í röð sem skemmtiþáttur ársins en á síðasta ári var handritsgerð í höndum þeirra Arnórs Pálma Arnarsonar, Ilmar Kristjánsdóttur, Jóns Gnarr, Sverris Þórs Sverrissonar, Katrínar Halldóru Sigurðardóttur og Kötlu Margrétar Þorgeirsdóttur.

Umsóknarfrestur er til og með 15. maí næstkomandi.


Tengdar fréttir

Landsmenn tístu um Áramótaskaupið

Áramótaskaupið fékk misgóðar móttökur eins og jafnan en áhorfendur voru duglegir að setja inn færslur á Twitter á meðan á því stóð






Fleiri fréttir

Sjá meira


×