Viðskipti innlent

Rúm­lega 470 misstu vinnuna í hóp­upp­sögnum í mars

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flestar hópuppsagnir í mars tengdust ferðamennsku á einn eða annan hátt.
Flestar hópuppsagnir í mars tengdust ferðamennsku á einn eða annan hátt. Vísir/vilhelm
Vinnumálastofnun bárust sex tilkynningar um hópuppsagnir í nýliðnum marsmánuði, þar sem 473 starfsmönnum var sagt upp störfum. Inn í þessari tölu eru þó ekki þær 1100 uppsagnir sem tengjast gjaldþroti WOW eða annarra fyrirtækja sem lögðu upp laupana í mars.

Í færslu á vef stofnunarinnar segir að tvær þessara hópuppsagna hafi verið í starfsemi tengdri „flutningum og geymslu,“ þar sem 328 manns var sagt upp störfum. Langflestir umræddra starfsmanna höfðu verið á mála hjá Airport Associates á Keflavíkurflugvelli, eða 315.

Hins vegar hefur stórum hluta þeirra starfsmanna verið boðin endurráðning á öðrum kjörum. Því má gera ráð fyrir að uppsagnir verði í raun færri en fram kemur í tilkynningunni.

Sjá einnig: Yfir 1500 manns orðnir atvinnulausir á fáeinum sólarhringum

Hinar uppsagnirnar koma úr fjórum atvinnugreinum; 46 manns var sagt upp í ferðaþjónustu, 37 í framleiðslu, 32 í byggingastarfsemi og 30 í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi. Í útskýringu Vinnumálastofnunar segir að flestar hópuppsagnir hafi borist frá fyrirtækjum á Suðurnesjum, eða 347, en 126 hafi borist frá fyrirtækjum á höfuðbogarsvæðinu. Hópuppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu maí til júlí 2019.

Uppsagnir hjá WOW air og aðrar uppsagnir vegna gjaldþrota eru ekki í þessum hópuppsögnum að sögn Vinnumálastofnunar, sem bætir við að fyrstu þrjá mánuði ársins 2019 hafi 570 einstaklingum verið sagt upp störfum í hópuppsögnum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×