Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Grótta 29-20 | Auðvelt hjá Selfoss

Arnar Helgi Magnússon skrifar
Haukur Þrastarson, leikmaður Selfoss.
Haukur Þrastarson, leikmaður Selfoss. vísir/bára
Selfyssingar léku sinn síðasta heimaleik í deildarkeppninni í kvöld þegar liðið fékk Gróttu í heimsókn í Hleðsluhöllina. Það var ljóst frá fyrstu mínútu leiksins hvar sigurinn myndi enda en Selfyssingar náðu undirtökunum strax í byrjun leiks.

 

Það var þó ekki bara þessi leikur sem að skipti stuðningsmenn Selfyssinga máli í kvöld en þegar litið var yfir stúkuna mátti sjá að margir voru að fylgjast með leik ÍBV og Hauka. Hefði ÍBV náð sigri væru Selfyssinga enn í séns á deildarmeistartitlinum. Svo fór að leikurinn í Eyjum endaði með jafntefli.

 

Heimamenn skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins áður en að Magnús Öder Einarsson kom Gróttu á blað á sjöttu mínútu með frábæru marki.

 

Áfram héldu gestirnir frá Seltjarnarnesi að vera í vandræðum í sóknarleiknum. Þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn af leiknum var liðið búið að skora tvö mörk og Selfyssingar níu. Grótta náði lítillega að rétta úr kútnum og staðan í hálfleik var 14-8, Selfoss í vil.

 

Bæði lið byrjuðu síðari hálfleikinn illa og kom fyrsta markið ekki fyrr en eftir fjórar mínútur.m Grótta náði aldrei að ógna forystu Selfyssinga og Patrekur Jóhannesson gat leyft ungu leikmönnunum að spila. Ari Sverrir Magnússon, ungur Selfyssingur, skoraði sitt fyrsta mark í vetur þegar hann fékk að fara á vítalínuna þegar skammt var eftir af leiknum.

 

Þegar öllu er á botninn hvolft var þetta göngutúr í garðinum fyrir heimamenn og algjört formsatriði að klára þennan leik. Lokatölur í Hleðsluhöllinn, 29-20, Selfyssingum í vil.

 

Af hverju vann Selfoss?

Selfoss er bara með töluvert betri mannskap heldur en Grótta, svo einfalt er það. Gæðamunurinn skein í gegn í kvöld og áttu gestirnir aldrei séns. Spurning hvort að leikmenn Gróttu hafi náð að gíra sig nægilega vel upp fyrir leikinn, en liðið hefur að engu að keppa.

 

Hverjir stóðu uppúr?

Það er orðið löngu tímabært að gefa Sölva Ólafssyni gott hrós. Markvarðarpar Selfyssinga fengið mikla gagnrýni í vetur og hafa þeir þurft að berjast í gegnum mikið mótlæti. Sölvi var frábær í dag, líkt og í leiknum gegn Fram um helgina. Frábærar fréttir fyrir Selfyssinga ef að Sölvi ætlar að vera í þessum ham í úrslitakeppninni.

 

Af útileikmönnum Selfoss var Hergeir Grímsson atkvæðamestur með sex mörk. Hjá Gróttu skoraði Viktor Orri fjögur mörk.

 

Hvað gekk illa?

Gróttu gekk illa að mæta til leiks. Liðið var í bölvuðum vandræðum í byrjun og Selfyssingar náðu að ganga á lagið. Liðið náði sér aldrei á strik, hvorki varnar- né sóknarlega. Afskaplega döpur frammistaða.

 

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga nú einn leik eftir í deildinni. Selfyssingar fara í Garðabæ á laugardag og mæta þar Stjörnunni. Með sigri þar er það ljóst að Selfoss mun enda í 2. sæti deildarinnar. Grótta mætir Aftureldingu en eins og flestir vita, er liðið fallið.

Einar: Erum bara ekki nógu góðir, það er bara málið

„Selfyssingar eru bara talsvert betri og áttu sigurinn fyllilega skilið, við erum í dag, tíu mörkum á eftir þeim. Það er ljóst,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Gróttu, eftir tapið gegn Selfyssingum í kvöld.

 

„Við vorum strax lentir sjö mörkum undir og ekki tíu mínútur liðnar. Eftir það er þetta allt í lagi, það er erfitt að lenda svona langt á eftir, sérstaklega á móti svona góðu liði. Við sköpuðum okkur fullt af góðum möguleikum en við erum bara ekki nógu góðir, það er bara málið.“

 

Einar vonaðist eftir því að sínir menn myndu mæta meira tilbúnir til leiks en raun bar vitni.

 

„Ég hélt að við værum bara vel gíraðir í þetta en annað kom á daginn. Það hefur ekki reynst erfitt hingað til og nú ætlum við bara að reyna að klára þetta með sóma. Það er einn leikur eftir og vonandi náum við að vera sjálfum okkur og Gróttu til sóma,“ sagði Einar að lokum.

Patrekur: Hefði viljað sjá Eyjamenn ná að lauma einu inn

„Eyjamenn hefðu þurft að vinna, við vissum það  Svona er þetta, við höldum bara áfram og ætlum okkur að enda í öðru sætinu. Þá jöfnum besta árangur Selfoss og ég yrði ánægður með það,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga eftir leikinn gegn Gróttu í kvöld.

 

Fjöldi stuðningsmanna Selfyssinga var eftir í Hleðsluhöllinni í kvöld en leik ÍBV og Hauka var varpað uppá risaskjá í Hleðsluhöllinni eftir að leik Selfoss og Gróttu lauk. Því miður, fyrir Selfyssinga, endaði leikurinn í Eyjum með jafntefli og því ljóst að Haukar eru deildarmeistarar.

 

„Auðvitað vonaði maður að Eyjamenn myndu lauma inn marki þarna í lokin, ég neita því ekki. Þetta minnti mann svolítið á stemninguna í Vallaskóla í lokaumferðinni í fyrra. Við erum með frábært fólk.“

 

Sigur Selfyssinga var aldrei í hættu en lokatölur á Selfossi urðu 29-20.

 

„Ég var ekki beint hræddur við þennan leik. Maður verður að hafa smá sjálfstraust og allt það. Maður er alltaf smeykur við þessa leiki þegar andstæðingurinn hefur að engu að keppa. Við vorum fókuseraðir og einbeittir, ég hrósa strákunum fyrir það.“

 

Sölvi Ólafsson var frábær í liði Selfyssinga í kvöld, líkt og í leiknum gegn Fram um helgina. Góðar fréttir fyrir Selfoss, rétt fyrir úrslitakeppni.

 

„Hann var mjög góður á móti Fram, alveg eins og í dag. Mér fannst hann bara sannfærandi, hreyfingarnar góðar og maður sér að honum líður vel. Eins gott fyrir mig að trufla hann ekki í því.“

 

„Nú styttist í úrslitakeppnina en Patrekur á sér engan óskamótherja þar.

Mér er alveg sama. Í Svíþjóð er þetta þannig að þú mátt velja andstæðinginn. Ég tek því sem að kemur. Ég vil mæta liðinu sem að verður númer sjö, þá verðum við númer tvö,“ sagði Patti að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira