Enski boltinn

Pep sagður halda því fram að enska úrvalsdeildin sé að hjálpa Liverpool á móti Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City og Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City og Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Getty/Stu Forster
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er sagður mjög reiður yfir leikjadagskrá Manchester City á lokasprettinum en liðið á enn möguleika á því að vinna fjórfalt á þessu tímabili.

Liverpool er með tveggja stiga forystu á Manchester City á toppnum í ensku úrvalsdeildinni en City-liðið á leik inni sem er reyndar á útivelli á móti nágrönnum þeirra í Manchester United.

Góður árangur Manchester City í enska bikarnum þýðir að það þarf að færa fleiri leiki hjá liðinu. Leikurinn á móti Manchester United var færður vegna leiksins við Swansea City í átta liða úrslitunum.

City átti að mæta Cardiff City 6. apríl næstkomandi en nú þarf að færa þann leik því þessa helgi fer fram undanúrslitaleikur Manchester City í enska bikarnum.



Leikurinn var þó ekki færður aftur eins og United leikurinn heldur fram um þrjá daga. Manchester City spilar því við Cardiff 3. apríl og mætir svo Brighton í undanúrslitum enska bikarsins aðeins 72 klukkutímum síðar.

Daily Mirror hefur heimildir fyrir því að Pep Guardiola sé brjálaður á bak við tjöldin vegna þessarar tilfærslu á Cardiff leiknum og telur að enska úrvalsdeildin sé að hjálpa Liverpool á móti Man. City

Það er ekki auðvelt að vera að keppa á þremur stöðum samtímis og það er ein af ástæðunum fyrir því hversu fá lið hafa náð að vinna þrennur eða þá fernuna.





Aprílmánður verður hins vegar rosalegur fyrir City því þar bætast við leikir í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar líka.

Manchester City spilar því níu leiki á 30 dögum eða leik á rétt rúmlega þriggja daga fresti. Það er rosalega álag á lið þó að það búi yfir mikilli breidd eins og Manchester City.

„Þetta er geðveiki, allir leikirnir sem við eigum í april. Þess vegna þurfum við á öllum að halda,“ sagði Pep Guardiola meðal annars á blaðamannafundi. Hann kom þó ekki með neinar samsæriskenningar þar en þær fá greinilega að koma fram í dagsljósið á bak við tjöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×