Körfubolti

Valskonur geta orðið deildarmeistarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valur hefur aðeins tapað einum leik síðan Helena Sverrisdóttir gekk í raðir liðsins.
Valur hefur aðeins tapað einum leik síðan Helena Sverrisdóttir gekk í raðir liðsins. vísir/vilhelm
Valur getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn í körfubolta kvenna með sigri á Stjörnunni í leik sem hefst klukkan 16:30 í dag. Þrír aðrir leikir leikir fara fram í 27. og næstsíðustu umferð Domino's deildar kvenna á sama tíma.

Valskonur hafa unnið 16 deildarleiki í röð og með sigri í Garðabænum er titilinn þeirra. Valur er með tveggja stiga forystu á Keflavík á toppi deildarinnar og auk þess með betri árangur í innbyrðis viðureignum liðanna.

Stjarnan er næstheitasta lið deildarinnar en Garðbæingar eru búnir að koma sér fyrir í 3. sætinu með sex sigrum í röð. Valur og Stjarnan mættust í úrslitaleik Geysisbikarsins í síðasta mánuði þar sem Valskonur höfðu betur.

Eftir gott gengi í síðustu umferðunum á Breiðablik enn möguleika á að bjarga sér frá falli. Blikar sækja Keflvíkinga heim í dag og verða að vinna til að forðast fall. Breiðablik hefur unnið tvo útileiki í röð.

Skallagrímur, sem er í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar, getur tryggt sæti sitt með sigri á KR í Borgarnesi. Breytir þá engu hvernig leikur Keflavíkur og Breiðabliks fer.

KR-ingar hafa farið út af sporinu á síðustu vikum og tapað sex leikjum í röð. KR er í 4. sæti deildarinnar með 30 stig, jafn mörg og Snæfell sem er í 5. sæti. Snæfell tekur á móti Haukum í dag. Hafnfirðingar hafa tapað fjórum leikjum í röð.

Leikir dagsins (hefjast allir klukkan 16:30):

Stjarnan - Valur

Keflavík - Breiðablik

Skallagrímur - KR

Snæfell - Haukar

Leikur Stjörnunnar og Vals verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×