Körfubolti

Breiðablik féll með tapi í Keflavík

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Gunnhildur Gunnarsdóttir tryggði Snæfelli dramatískan sigur á Haukum í Domino's deild kvenna og hélt vonum þeirra um sæti í úrslitakeppninni á lofti. Breiðablik féll úr deildinni með tapi fyrir Keflavík.

Haukar byrjuðu betur í Stykkishólmi og leiddu í hálfleik 34-36. Gestirnir komust mest í 11 stiga forystu í þriðja leikhluta en Snæfell kom til baka undir lok leikhlutans og munaði aðeins fjórum stigum fyrir síðasta fjórðunginn.

Fjórði leikhluti var æsispennandi og skiptust liðin á að taka forystuna. Eva Margrét Kristjánsdóttir kom Haukum einu stigi yfir þegar 30 sekúndur voru eftir af leiknum. Gunnhildur átti hins vegar síðasta orðið með þriggja stiga körfu og Snæfell vann 76-74.

KR vann 85-66 sigur á Skallagrími í Borgarnesi. Heimakonur voru sterkari í upphafi og leiddu eftir fyrsta leikhlutan en KR vann hina þrjá.

Staðan í hálfleik var 41-39 fyrir Skallagrím en Kiana Johnson kom KR yfir strax í upphafi seinni hálfleiks en heimakonur hengu í Vesturbæingum út þriðja leikhlutans. Í fjórða leikhluta sigldu gestirnir hægt og rólega lengra fram úr og unnu að lokum öruggan sigur.

Snæfell og KR eru jöfn að stigum í fjórða og fimmta sæti fyrir lokaumferð deildarinnar. KR er með betri innbyrðisstöðu á Snæfell og því þurfa Snæfellingar að vinna deildarmeistara Vals ásamt því að treysta á að KR tapi fyrir Keflavík til þess að komast í úrslitakeppnina. 

Breiðablik féll formlega úr deildinni eftir tap fyrir Keflavík suður með sjó. Blikar hafa stefnt í fall bróðurpart vetrarins en þó barist hetjulega síðustu umferðir.

Keflavík var með yfirhöndina allt frá upphafi og leiddu 51-39 í hálfleik. Leiknum lauk með 81-69 sigri Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×