Körfubolti

Skrýtið að mismuna mönnum eftir þessu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Getty/Mark Brown

Um helgina fer körfuknattleiksþing KKÍ fram í 53. sinn í Laugardalnum þar sem fulltrúar frá aðildarfélögum sambandsins sitja og ræða framtíð KKÍ. Sambandið birti í vikunni þinggögnin þar sem koma fram tillögur félaga til reglubreytinga.

Sindri frá Höfn í Hornafirði leggur til breytingu á 18. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót en samkvæmt greininni eru félögum lagðar línur um að aðeins megi einn erlendur leikmaður vera inni á vellinum hverju sinni sem er ekki ríkisborgari lands innan ESB eða EES.

Hér áður var liðum óheimilt að hafa meira en einn erlendan leikmann inni á vellinum hverju sinni samkvæmt 4+1 reglunni en eftir að eftirlitsstofnun EFTA tilkynnti íslenskum stjórnvöldum að þessi regla væri brot á reglum um evrópska efnahagssvæðið var reglunni breytt og var félögum frjálst að tefla fram eins mörgum erlendum leikmönnum sem koma frá ESB ríkjum og þau vildu.

Sindri vill breyta reglunni og setja alla evrópska leikmenn undir sama hatt í stað þess að það skipti máli hvort land viðkomandi leikmanns sé innan Evrópusambandsins.

„Þetta kemur upp hjá okkur í ljósi þess að Ivan Kekic, Serbi sem kom til Íslands fyrir þremur árum til að vinna, vildi spila körfubolta með vinnunni en hann telst núna sem Kani á pappírunum. Þegar við sömdum við bandarískan leikmann í haust minnkaði hlutverk hans hjá okkur undir eins. Grunnhugmyndin hjá okkur er að það sé skrýtið að mismuna mönnum eftir því hvort ríki sé innan ESB,“ sagði Hjálmar Jens Sigurðsson, formaður körfuknattleiksdeildar Sindra, í samtali við Fréttablaðið.

„Við höfum rætt þetta við nokkra aðila. Þetta ætti líka að auðvelda liðum að finna leikmenn fyrir betra verð ef fleiri leikmenn standa til boða. Fyrir okkur er þetta líka tækifæri til að geta boðið mönnum að koma hingað að spila og vinna, það gefur landsbyggðarliðunum fleiri möguleika. Við erum enn með mjög brothætt lið, ef það detta út 2-3 leikmenn þá er leikmannahópurinn orðinn full þunnskipaður en við stefnum að því að setja upp akademíu hérna með framhaldsskólanum til að reyna að fá unga leikmenn hingað.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.