Handbolti

Patrekur: Átti mín bestu ár í handboltanum hér

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Patrekur Jóhannesson er í miklum metum hjá stuðningsmönnum KA.
Patrekur Jóhannesson er í miklum metum hjá stuðningsmönnum KA. vísir/skjáskot
„Ég er bara ánægður. KA-liðið er hrikalega sterkt hérna á heimavelli og þeir gefast aldrei upp. Ég vissi það alveg. Fyrri hálfleikurinn mjög vel leikinn; við vorum mjög einbeittir og héldum leikplani og markvarslan var eftir því,“

„KA kom til baka og þetta varð hörkuleikur í restina en að koma hingað og ná í tvö stig er bara gott,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í leikslok eftir að hafa séð sína menn leggja KA að velli í Olís-deild karla í kvöld.

Patrekur er einn af þremur leikmönnum í frægðarhöll KA og er óhætt að segja að hann sé í miklum metum hjá stuðningsmönnum KA eftir að hafa leikið fyrir félagið á bestu árum þess á tíunda áratug síðustu aldar.

Óttaðist Patrekur ekkert að töfrar KA-heimilisins myndu ná undir skinnið á yngri leikmönnum liðsins þegar KA náði áhlaupi í síðari hálfleik.

„Jú algjörlega. Ég þekki þetta hús mjög vel og átti mín bestu ár í handboltanum hér. Þess vegna veit ég alveg að það er kraftur í þessu húsi. Það voru læti í mér og ég var á mörkunum að fá gult spjald. Það var spenna í mér. KA-lið er feykisterkt og Stebbi er klókur þjálfari sem kemur oft með flókin verkefni og þess vegna var ég ekkert rólegur fyrr en alveg í restina,“ sagði Patrekur.

Atli Ævar Ingólfsson tók ekki frekari þátt í leiknum eftir að hafa fengið þungt högg á andlitið í fyrri hálfleik.

„Hann fékk á lúðurinn og ég á eftir að kíkja á það. Það er alltaf tekið fast á Atla. Hann er líkamlega sterkur og þetta er ekkert í fyrsta skipti sem tekið er fast á honum. Við ákváðum að nota hann ekkert meira eftir það og það er slæmt að missa hann en Guðni gerði vel. Það er breidd í liðinu,“ sagði Patrekur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×