Skoðun

Listin að rífast

Gunnar Þór Sigurjónsson skrifar
Það er list að rífast, það getur verið erfitt að vera lausnarmiðaður og sanngjarn þegar hitnar í kolunum. Það vill oft gleymast að besta leiðin til að enda rifrildi er að komast að niðurstöðu eða sátt, og því við hæfi að rífast í áttina að því.

Því miður, hvort sem menn eru í rifrildi eða kjarasamningaviðræðum þá sjá menn stundum bara rautt. Þegar menn sjá rautt þá fara menn oft að særa, reyna vinna rifrildið í stað þess að loka því eða klára það. Það er einmitt þar sem við stöndum í kjaraviðræðum.

Það verður ekki deilt um að kominn sé tími á miklar kjarabætur fyrir þá lægst launuðu og er það mín upplifun að samfélagið heilt yfir sé sammála. Einnig er það mín skoðun að alvöru árangri verði ekki náð nema með breytingum á skattkerfinu samhliða nýjum langtíma kjarasamningum sem stíga skref í átt í stöðuleika.

En þótt almennur vilji sé að bæta kjör eru menn hvorki sammála um hve mikið né hvernig. Niðurstaðan er pattstaða og verkföll á næsta leiti. Ljóst er að mörgum er heitt í hamsi og sjá menn rautt. Það eru til margar leiðir til verkfalla því er það mér algjörlega óskiljanlegt að byrja á því að blóðga ferðaþjónustuna varanlega í fyrstu lotu. 

Það er margt sem má bæta í ferðaþjónustunni og sést það nú að ferðamönnum fækkar í fyrsta sinn í langan tíma. Þarna er þó engu síður bransi sem veltir vel yfir milljarði á hverjum degi og fæðir tugþúsundir íslendinga. Þetta er engu síður viðkvæmur bransi og nú standa yfir erfiðar samningaviðræður um hundruði starfa og framtíð WOW Air sem spilar stórt hlutverk í ferðaþjónustunni.

Það á að vera markmið verkalýðsbaráttu að gera hlutina betri, búa til betra samfélag og að landsmenn búi við betri kjör. Halda menn virkilega að leiðin til þess, sé að blóðga ferðaþjónustuna. 

Þannig ég spyr, erum við að reyna særa eða semja?




Skoðun

Sjá meira


×