Skoðun

Þruman er að boða okkur stríð

Bubbi Morthens skrifar
Hvernig geta menn verið hissa á því að það sé lítil sem engin virðing borin fyrir alþingismönnum eða ráðherrum? Við verðum ítrekað vitni að mögnuðum atvikum sem vekja upp sorg og vanmátt sem brýst út og verður oft að reiði.

Auðkýfingur með ítök og tengsl inn í Sjálfstæðisflokkinn skrifar sjávarútvegsráðherra bréf og biður hann um að koma því í kring að hann geti stundað sínar hvalveiðar. Honum verður að ósk sinni eins og ekkert sé. Annar auðmaður ásamt fyrrverandi forseta Alþingis sem er talsmaður Norðmanna er eiga nærri öll laxeldisfyrirtæki á Íslandi hefur nánast óheftan aðgang að þingmönnum og ráðherrum í gegnum sitt fólk. Báðir þessir ágætu menn hafa ítök og vinatengsl inn í Sjálfstæðisflokkinn. Þeir hafa samband við þá sem ráða og segja: Það eru einhver ráðuneyti að pönkast í laxeldinu fyrir vestan og hafa fellt niður leyfin þeirra. Er ekki hægt að laga þetta?

Slagorð þeirra verður: „Björgum Vestfjörðum!“ Og á nokkrum dögum fer áróðursmaskína í gang og sjávarútvegsráðherra breytir einfaldlega lögum til að bjarga Vestfjörðum og kannski einhverjum öðrum í leiðinni. Því um daginn voru nokkrir einstaklingar að selja Norðmönnum hluta sinn í laxeldisfyrirtæki. Sumir fengu á annan milljarð í vasann en „Björgum Vestfjörðum“ fékk ekkert.

Við erum æði mörg sem horfum á og hugsum: Ætlar enginn að gera neitt? Ætlar enginn að stoppa svona skítamix?

Á sama tíma og virðing Alþingis er í frjálsu falli mæta Klaustursmenn galvaskir aftur á þing og segja haldið kjafti með glott á vör. Og við sem stöndum utan við og horfum og hlustum erum orðlaus.

Alþingi er algjörlega rúið virðingu og ráðamenn margir sömuleiðis. Og svo eru menn hissa á að alþýðan sé reið. Menn skulu ekki vera hissa þótt himnarnir ræski sig.

Þruman er að boða okkur stríð.




Skoðun

Sjá meira


×