Viðskipti innlent

Laun á Íslandi hækkað mikið í evrum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjármálaráðuneytið er í Arnarhvoli.
Fjármálaráðuneytið er í Arnarhvoli. Vísir/Vilhelm
Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur tilefni til að vekja athygli á að laun á Íslandi hafi hækkað um 80% í evrum talið á árunum 2013 til 2017. Verðlag á Íslandi var að sama skapi 66% hærra en að meðaltali í löndum ESB árið 2017. Útreikningarnir taka þó ekki mið af gengisveikingu krónunnar á síðustu misserum.

Í tilkynningu sem ráðuneytið sendi á fjölmiðla í morgun er vísað í tölur evrópsku hagstofunnar Eurostat og áhrif af styrkingu krónunnar á síðustu árum reifuð. Til að mynda hafi sterkari gengi valdið miklum vexti í kaupmætti í erlendri mynt - „á sama tíma og laun hækkuðu mikið,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins og bætt við að „hvergi í Evrópu“ hafi laun hækkað jafn mikið á þennan mælikvarða á undanförnum árum.

Hið háa launastig hér á landi endurspegli hátt raungengi, sem sé „ein helsta ástæða þess að verðlag hér á landi er hátt þegar það er borið saman við önnur lönd.“

Í þeim samanburði, sem byggður er á útreikningum evrópsku hagstofunnar, sé verðlag í krónum umreiknað yfir í evrur. Því hafi gengisbreytingar mikil áhrif á samanburðinn. „Þegar krónan styrkist verða vörur sem verðlagðar eru í íslenskum krónum dýrari í evrum talið og því hækkar verðlag sjálfkrafa á þennan samræmda mælikvarða,“ segir á tilkynningunni.

Hins vegar er ekki minnst á það í tilkynningunni að krónan hefur veikst umtalsvert frá árinu 2017. Til að mynda var gengi bandaríkjadalsins í lok árs 2017 um 105 krónur en er í dag 121 króna. Sterlingspundið fékkst fyrir 139 krónur í desember 2017 en kostar nú 155 krónur og evran hefur hækkað úr 123 krónum í 136,6 á sama tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×