Seinni bylgjan mætti aftur á sjónvarpsskjáinn í gærkvöldi eftir langt frí vegna HM í handbolta. Logi Geirsson og Jóhann Gunnar Einarsson voru sérfræðingar Tómasar Þórs Þórðarsonar.
„Ég er rosalega ósáttur með Daníel Frey Andrésson. Ég er búinn að vera sá maður sem er búinn að tala hvað mest fyrir því að hann sé besti maðurinn í deildinni og eigi að vera í landsliðinu og svona,“ sagði Logi.
„Hann fékk kallið núna á milli jóla og nýárs frá landsliðinu en neitaði að mæta afþví hann var í Svíþjóð og vildi vera með kærustunni sinni.“
„Hann hefði spilað á HM. Ég er brjálaður út í hann.“

Tómas Þór benti á það að þannig varð það einmitt að sá leikmaður sem var kallaður inn í landsliðshópinn á milli jóla og nýárs, Ágúst Elí Björgvinsson, var sá sem fór á HM ásamt Björgvini Páli Gústavssyni.
„Já, ég er að segja það, hann [Daníel] hefði farið.“
„Ég er búinn að vera í þrjú ár að bíða eftir þessu, hann er akkúrat gaurinn sem hefði komið og orðið Bjöggi í Peking, þess vegna er ég brjálaður út í hann.“
Logi bakkaði aðeins með orð sín að hann ætlaði aldrei að hrósa honum aftur en það var ekki að sjá að hann myndi taka Valsmanninn aftur í sátt á næstu dögum.
Eldræðu Loga má sjá í spilaranum hér að neðan.