Leikjavísir

God Eater 3: Ódýrari útgáfa af Monster Hunter

Samúel Karl Ólason skrifar
Það er óhjákvæmilegt að bera God Eater 3 saman við Monster Hunter World en í þeim samanburði kemur GE3 ekkert allt of vel út.
Það er óhjákvæmilegt að bera God Eater 3 saman við Monster Hunter World en í þeim samanburði kemur GE3 ekkert allt of vel út.

God Eater 3 er frekar undarlegur leikur þar sem fáklæddir unglingar berjast við stærðarinnar skrímsli með vopnum sem eru stærri en þau sjálf. Hann svipar mikið til Monster Hunter en er ekki jafn góður þó hann sé skemmtilegur.

Leikurinn gerist í Anime-söguheimi þar sem verur sem kallast Aragami hafa lagt undir sig mest allan heiminn og nánast eytt mannkyninu. Aðeins nokkrir aðilar geta borið vopn sem geta grandað þessum skrímslum og kallast þeir Adaptive God Eaters eða AGE. Spilarar setja sig í hlutverk slíkrar persónu og berjast við skrímslin í rústum heimsins.

Það er óhjákvæmilegt að bera God Eater 3 saman við Monster Hunter World en í þeim samanburði kemur GE3 ekkert allt of vel út. Það er erfitt að segja að grafíkin sé endilega verri en hún er öðruvísi. Spilunin er samt verri og leiknum tókst ekki að fanga mig nægilega vel.

Það er þó svo ógeðslega mikið af valmyndum í þessum leik og hlutum til að fylgjast með. Á milli borða getur farið allt of mikill tími í það að stússast með eigin inventory og sömuleiðis hjá öðrum persónur sem fylgja mann í orrustu. Þetta er þó ekki jafn mikið og það var í MHW en maður þarf að gera það oftar.

Fyrir hvert hvert verkefni þarf maður að skoða hvaða vopn maður er með, hvort hægt sé að uppfæra þau og margt fleira. Þetta þarf líka að gera fyrir þær persónur sem fylgja manni og getur tekið leiðinlega langan tíma. Þetta tekur stundum lengri tíma en verkefnið sjálft.

Ég veit ekki af hverju en leikurinn notast mikið við sömu svæðin. Maður er alltaf að berjast við sömu skrímslin á sama svæðinu, sem er undarlegt. Hvert verkefni er svo hægt að spila aftur til að fá fleiri og betri hluti til að smíða fleiri og betri vopn. Sem sagt: Grind. Bölvað grind.

Bardagar leiksins eru hraðir og skemmtilegir. Maður hefur hins vegar enga tilfinningu fyrir því hvernig þeir ganga, né fyrir því hvort maður sé í raun að gera einhvern skaða. Skjárinn er allur út í einhverjum ljósum og hasarinn getur verið of mikill fyrir minn smekk. Þá átti ég í miklum erfiðleikum með að átta mig á stjórn leiksins. Hvaða takkar gerðu hvað og hvernig. Leikurinn hjálpaði mér lítið sem ekkert. Þetta myndband hér hjálpar þó til.

Samantekt-ish

God Eater 3 er ekki leiðinlegur leikur en hann fangaði mig ekki almennilega. Persónur leiksins eru óáhugaverðar og sagan er oftar en ekki óþægilega klisjukennd. Bardagarnir geta þó verið skemmtilegir og sérstaklega þegar maður er að berjast við stærstu og erfiðustu skrímslin og þegar maður er að gera tilraunir með mismunandi vopn og hæfileika.

Ég spilaði leikinn á PS4 með eintaki sem ég fékk frá framleiðendum hans, Bandai Namco.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.