Kynningar

„Aldrei pláss fyrir hatursfulla orðræðu, umburðarleysi og útlendingahatur“

Heimsljós kynnir
Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

„Grundvallargildi stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sæta árásum um heim allan,“ sagði Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri SÞ í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hann gerði grein fyrir helstu verkefnum nýhafins árs. Hann sagði í ræðunni að hugmyndafræðileg átök ættu sér stað og brýnt væri að ráðast að rótum ótta fólks í síbreytilegum heimi.

„Það er uggvekjandi að heyra hatursfullt bergmál löngu liðinna tíma og að horfa upp á hryllilegar skoðanir verða hversdagslegar. Við skulum ekki gleyma lærdómum fjórða áratugarins. Það getur aldrei verið pláss fyrir hatursfulla orðræðu, umburðarleysi og útlendingahatur. Við munum berjast gegn því hvar sem er, hvenær sem er,” sagði aðalframkvæmdastjórinn.

Að hans mati er þetta þó ekki nóg.

„Við verðum að gera meira, að kafa dýpra. Ef okkur á að takast að verja gildi okkar þá verðum við að sýna að við höfum skilning á ótta fólks, angist og áhyggjum. Við verðum að höggva að rótum þess sem veldur því að fólki finnst það vera siglt í strand í síbreytilegum heimi.”

Hann sagðist sannfærður um að heimurinn gæti haldið áfram vegferð sinni áhyggjulaust í átt til græns hagkerfis og gæti notið ávaxta fjórðu iðnbyltingarinnar, en bætti við að takast yrði á við skakkaföll á vinnumarkaði.

„Ég er jafn sannfærður um að við verðum að fjárfesta í félagslegri samheldni, menntun og nýrri hæfni og öryggisneti fyrir þá sem eiga á hættu að sitja eftir. Við megum aldrei gleyma námumanninum, verkamanninum á færibandinu og öllum þeim um allan heim sem standa höllum fæti, eru fórnarlömb kreppu og óttast að vera skildir eftir.”

Guterres hvatti til nýrrar herferðar í þágu grundvallargilda “mannréttinda og mannlegrar reisnar sem við höfum í hávegum og við verðum að sjá í framkvæmd í lífi allra.”

Aðalframkvæmdastjórinn sagði að viðvörunarbjöllur hringdu vegna hættunnar af loftslagsbreytingum. Hann benti á að greint var frá því í síðustu viku að höfin væru að hlýna 40% hraðar en áður var talið. Hann hvatti aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til þess að kynna nýjar lausnir á leiðtogafundi samtakanna um loftslagsmál sem boðað hefur verið til á allsherjarþinginu í september.

„Ég hvet ykkur til að sjá til þess að 19. september marki tímamót í baráttunni við ískyggilegar loftslagsbreytingar, í því að uppfylla Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun og réttláta hnattvæðingu.”

Byggt á frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna - UNRIC.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.