Leikjavísir

Leikirnir sem beðið er eftir

Samúel Karl Ólason skrifar
Merkilegt er hve margir væntanlegra leikja snúast um einhvers konar heimsendi, uppvakninga og eintóm vandræði.
Merkilegt er hve margir væntanlegra leikja snúast um einhvers konar heimsendi, uppvakninga og eintóm vandræði.

Árið sem nú er að byrja er mjög svo efnilegt þegar kemur að tölvuleikjum. Síðasta ár var hið þokkalegasta og komu út nokkrir mjög góðir leikir. Það er útlit fyrir að mikill fjöldi leikja komi út á árinu sem er að byrja og beðið hefur verið eftir mörgum þeirra. Merkilegt er hve margir þeirra snúast um einhvers konar heimsendi, uppvakninga og eintóm vandræði.

Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir nokkra af helstu leikjunum sem munu koma út á árinu. Þar að auki eru nokkrir sem er ekki víst að komi út á árinu. Eins og svo oft áður eru nokkrir leikir á listanum sem hafa verið fyrri listum og þá er vert að benda á að útgáfudagar eru að mörgu leyti ekki til staðar og geta breyst.

Leikir sem snúa að nokkurs konar heimsendi munu vera ansi algengir í ár. Það eru þó án efa margir aðrir leikir en þeir sem koma fram hér sem fólk er spennt fyrir. Ef svo er mega lesendur endilega benda á þá í athugasemd.

Ace Combat 7: Skies Unknown

Þetta verður fyrsti leikurinn í þessari seríu í rúman áratug. Það er ekki hægt að segja Ace Combat vera hermi en þess í stað er um hasarleik að ræða. Leikurinn er framleiddur af japanska fyrirtækinu Bandai Namco og fjallar um stríð á milli Osean bandalagsins og konungsríkisins Erusea. Ef marka má stiklu leikins verður hann nokkuð dramatískur.

Ace Combat 7: Skies Unknown kemur út 18. janúar fyrir PS4, Xbox One og PC.

Resident Evil 2

Resident Evil serían er nú orðin nokkuð langlíf og hefur lengi verið vinsæl. Nú hefur Capcom ákveðið að endurgera leikinn Resident Evil 2. Ekki er um svokallað „remaster“ að ræða heldur hreina endurgerð með nýrri grafík og breyttri spilun.
Resident Evil 2 kemur út 25. janúar á PS4, Xbox One og PC.

Kingdom Hearts 3

Söguhetjur Final Fantasy seríunnar og Disney, já Disney, taka höndum saman í ævintýraleiknum Kingdom Hearts 3. Þarna verði sjóræningjar, íbúar Andabæjar, leikföngin í Toy Story, Elsa og margir fleiri. Saman þurfa þessar hetjur að bjarga heiminum, eins og gengur og gerist í tölvuleikjum.

Kingdom Hearts 3 kemur út 29. janúar á PS4 og Xbox One.

Far Cry: New Dawn

Nýjasti leikurinn í Far Cry seríunni er beint framhald af síðasta leiknum en það hefur ekki verið gert áður í seríunni. Eins og þeir sem spiluðu Far Cry 5 vita, þá endaði sá leikur ekki vel, hvernig sem á það er litið. Joseph Seed hafði rétt fyrir sér og kjarnorkustríð skall á.

New Dawn gerist sautján árum seinna og við fyrstu sýn virðist sem að kjarnorkustyrjöld hafi ekki komið svo illa niður á heiminum. Hann iðar af lífi og litum.

Far Cry: New Dawn kemur út 15. febrúar á PS4, Xbox One og PC.

Crackdown 3

Hasarleikurinn Crackdown 3 hefur átt erfitt frameiðsluferli. Honum hefur verið frestað nokkrum sinnum og átti fyrst að koma út í nóvember 2017. Nú er þó útlit fyrir að leikurinn komi loksins út.

Hann gerist tíu árum eftir Crackdown 2 og þurfa útsendarar „Stofnunarinnar“ að berjast gegn hinum dularfullu samtökum Terra Nova sem stjórna borginni New Providence. Í stuttu máli sagt þá snýst Crackdown 3 um usla og óreiðu. Spilarar þurfa að drepa útsendara Terra Nova og rústa öllu sem þeir eiga.

Crackdown 3 kemur út 15. febrúar á Xbox One og PC.

Metro Exodus

Þriðji leikurinn í Metro seríunni kemur út í febrúar. Að þessu sinni virðist sem Artyom þurfi að finna nýjan samastað í rústum Rússlands eftir kjarnorkustyrjöld. Leikurinn gerist tveimur árum eftir Metro: Last Light og þá 23 árum eftir að heimurinn endaði næstum því.

Artyom þarf að berjast við ýmiss stökkbreytt skrímsli og menn til að komast á leiðarenda.

Metro Exodus kemur út 15. febrúar á PS4, Xbox One og PC.

Anthem

Nýjasti leikur Bioware, Anthem, er hlutverka- og fjölspilunarleikur þar sem spilarar munu tilheyra hópi sem kallast Freelancers. Þeir klæðast brynvörðum búningum sem ganga undir nafninu Javelins.

Búningar þessir veita spilurum hina ýmsu hæfileika eins og til dæmis að fljúga/svífa og eru þeir notaðir til að kanna söguheiminn og berjast gegn óvinum.

Anthem kemur út 22. febrúar á PS4, Xbox One og PC.

Total War: Three Kingdoms
Hernaður á fornöldum í Kína. Það er sögusvið herkænskuleiksins Total War: Three Kingdoms. Total War serían hefur lengi, að mestu, byggt á sögulegum tímabilum heimsins og á þessi að byrja árið 190, þegar fjölmargir stríðsherrar börðust um yfirráð í Kína.

Total War: Three Kingdoms kemur út 7. mars á PC.

Tom Clancy‘s The Division 2

The Division stóðst ekki væntingar bæði Ubisoft og spilara, heilt yfir litið. Nú gerir Ubisoft aðra tilraun með Division 2 og ætla framleiðendur leiksins að nýta sér ummæli spilara um fyrri leikinn. Eins og í svo mörgum öðrum leikjum er heimsendir sögusvið Division leikjanna.

Spilarar þurfa að taka höndum saman og berjast gegn gengjum ribbalda sem herja á eftirlifendur Washington DC.

The Division 2 kemur út 15. mars á PS4, Xbox One og PC.

Sekiro: Shadows Die Twice

From Software, sem eru hvað þekktastir fyrir Dark Souls leikina hafa nú snúið sér til Japan. Leikurinn ber keim af öðrum leikjum fyrirtækisins og þurfa spilarar að berjast við menn og djöfla í heimi sem fyrirgefur ekki mistök.

Sekiro: Shadows Die Twice kemur út 22. mars á PS4, Xbox One og PC.

Days Gone

Days Gone fjallar um Deacon St. John og baráttu hans við nokkurs konar uppvakninga og vonda menn. Deacon sjálfur er þó varla hefðbundin hetja þar sem hann var glæpamaður áður en heimurinn endaði.

Days Gone kemur út 26. apríl á PS4.

Rage 2

Skotleikurinn Rage 2 er, eðli málsins samkvæmt, framhald leiksins Rage. Um er að ræða skotleiki sem gerast eftir heimsendi. Rage 2 mun bera keim af Mad Max þar sem bílaorrustur munu spila stóra rullu.

Rage 2 kemur út 14. maí á PS4, Xbox One og PC.

Doom Eternal

Doom Slayer mætir aftur til leiks í okkar náinni framtíð. Sveitir helvítis hafa ráðist á jörðina og enginn annar getur bjargað málunum, né gert það á jafn svalan hátt.

Doom Eternal er ekki með útgáfudag en hann kemur út á PS4, Xbox One, Nintendo Switch og PC.

Skull and Bones

Sjóræningjaleikurinn Skull & Bones virðist hafa verið í framleiðslu í áratug. Hann átti upprunalega að koma út á seinni hluta síðasta árs en því var frestað og stendur til að gefa hann út á þessu ári. SKull and Bones er fjölspilunarleikur sem byggir að miklu leyti á sjóorrustum Assassins Creed seríunnar og þá sérstaklega Black Flag.

Spilarar munu byggja upp eigin skip og etja kappi við aðra spilara á Indlandshafi.

Skull and Bones er ekki með útgáfudag en hann kemur út á PS4, Xbox One og PC.

Dying Light 2

Uppvakningar og skrímsli hafa gengið frá flestum íbúum jarðarinnar. Eftirlifendur einnar borgar þurfa bæði að berjast við skrímslin sem skríða úr felum þegar sólin sest og aðra eftirlifendur. Borgin og íbúar hennar munu breytast eftir því hvaða ákvarðanir spilarar taka.

Dying Light 2 er ekki með útgáfudag en hann kemur út á PS4, Xbox One og PC.

Ghost of Tsushima

Ghost of Tsushima mun setja spilara í skó samúrai stríðsmanns sem lifði árás Mongóla á eyjuna Tsushima árið 1274. Leikurinn gerist í opnum heimi og sem síðasti samúrai-inn munu spilarar þurfa að beita öllum brögðum til að berjast gegn innrás Mongóla.

Ghost of Tsushima er ekki með útgáfudag en hann kemur út á PS4.

Gears 5

Fimmti leikur hinnar vinsælu Gears of War seríu mun líta dagsins ljós á þessu ári. Kait, ein af persónum Gears 4, leitar uppruna síns og Locust. JD er einnig þarna og virðist sem að samband þeirra tveggja versni verulega.

Gears er þriðju persónu skotleikur, eins og allir hinir leikirnir í seríunni.

Gears 5 er ekki kominn með útgáfudag en hann kemur á Xbox One.

The Last of Us Part 2

Naughty Dog heldur sögu Ellie áfram í nýjum leik. Enn sem komið er hefur Joel ekkert sést í þeim myndböndum sem sýnd hafa verið úr leiknum en hann er þó þarna. Að þessu sinni er Ellie orðin eldri og þarf að berjast við meðlimi hættulegs sértrúarsöfnuðs og auðvitað nokkurs konar uppvakninga.

The Last of Us Part 2 er ekki kominn með útgáfudag en hann kemur út á PS4.

Death Stranding

Nýjasti leikur Death Stranding er mikil ráðgáta. Lítið sem ekkert er vitað um söguþráð leiksins eða slíkt. Það er þó mögulegt að Ísland, eða þá umhverfi landsins, muni spila rullu í leiknum. Þar sem leikurinn er runninn undan rifjum hins víðfræga Hideo Kojima er Death Stranding þó beðið með mikilli eftirvæntingu.

Death Stranding er ekki kominn með útgáfudag en hann kemur út á PS4.

Cyberpunk 2077

Það er liðinn ansi langur tími frá því að CD Projekt RED, framleiðendur Witcher leikjanna, birtu stiklu fyrir leikinn Cyberpunk 2077. Síðan gerðist lítið sem ekkert fyrr en nú í ár þegar fyrirtækið birti stiklu og langt sýnishorn af spilun leiksins.

Enn sem komið er vilja forsvarsmenn fyrirtækisins ekkert segja um hvenær leikurinn verði gefinn út að öðru leyti en það verði ekki fyrr en hann er tilbúinn. Það er auðvelt að bera ákveðna virðingu fyrir því.

Cyberpunk 2077 er ekki kominn með útgáfudag en hann kemur út á PS4, Xbox One og PC.

Starfield

Fyrirtækið Bethesda vinnur nú að nýrri seríu í fyrsta sinn í 25 ár. Fyrirtækið er hvað þekktast fyrir Elder Scrolls og Fallout seríurnar. Lítið sem ekkert er vitað um leikinn og fyrirtækið hefur einungis birt eina óljósa stiklu.

Starfield er ekki kominn með útgáfudag en hann kemur væntanlega út á PS4, Xbox One og PC.

The Elder Scrolls 6
Það eina sem hægt er að segja um Elder Scrolls 6 er að á meðan Bethesda er að vinna að Starfield eru ekki miklar líkur á að við fáum nýjan leik í þessari gífurlega vinsælu seríu. Enn sem komið er höfum við einungis fengið að sjá stutt myndband af landslagi, sem á þó að gefa ákveðnar vísbendingar um hver í söguheiminum stóra leikurinn gerist.

Elder Scrolls 6 er ekki kominn með útgáfudag en hann kemur væntanlega út á PS4, Xbox One og PC.


Tengdar fréttir

Bestu leikir ársins

Enn eitt árið er nú að enda komið og þá er vert að fara yfir þá tölvuleiki sem hafa skarað framúr á þessu ári.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.