Körfubolti

Körfuboltakvöld: KR-ingarnir virkuðu eins og vel stillt klukka

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fjórtánda umferðin í Dominos-deild kvenna fór fram um helgina og strákarnir í Domino's Körfuboltakvöldi gerðu umferðina upp í þætti sínum í fyrrakvöld.

KR vann góðan sigur á Keflavík í stórleik umferðarinnar og náðu bikarmeistararnir í Keflavík sér alls ekki á strik í leiknum á meðan nýliðarnir í KR léku við hvurn sinn fingur.

„Allt flæði í Keflavíkur-liðinu var úti á Eldey að reyna klifra upp á eitthvað fjall á meðan KR-ingarnir virkuðu eins og vel stillt klukka,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, einn spekingur þáttarins.

„Það voru byrjendamistök. Þær gátu varla sent á milli sín og þetta var eins og þær væru að hittast í fyrsta skipti og spila saman,“ sagði annar spekingurinn, Hermann Hauksson.

„Þetta eru tvö af þremur bestu liðum deildarinnar og eitthvað hefur KR til síns bruns. Þær eru heldur betur búnar að vera flottar og sýndu það en Keflavík er mikið betra en þær gerðu í þessum leik. Þær þurfa að girða sig í brók,“ sagði Jón Halldór við.

Næst barst talið að Val og Helenu Sverrisdóttur sem gekk í raðir Val fyrir jól en Valur er í fjórða sætinu og hefur verið á hraðri uppleið eftir komu Helenu.

„Þetta er mjög furðulegt. Helena er svindlkall. Hún kemur inn í eitt af liðunum og Valur fer inn í úrslitakeppnina og hvað gerist þá? Að mínu mati þá er þetta "no-brainer". Þær verða Íslandsmeistarar.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×