Innlent

Tildrög rútuslyssins í Öræfum enn til rannsóknar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi rútuslyssins síðastliðinn fimmtudag.
Frá vettvangi rútuslyssins síðastliðinn fimmtudag. vísir/jók
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að tildrög rútuslyssins í Öræfum síðastliðinn fimmtudag séu enn til rannsóknar. Lögreglan gefi sér ekkert fyrir fram í þeim efnum og mun því ekki tjá sig um tildrög slyssins fyrr en að rannsókn lokinni.

Búið er að taka skýrslum af flestum farþegum rútunnar sem og ökumanni en enn á eftir að taka skýrslur af þeim sem enn hafa ekki haft heilsu til þess. Alls voru 32 kínverskir ferðamenn í rútunni auk ökumannsins.

Oddur segir að í morgun hafi staðan verið þannig að enn ætti eftir að taka skýrslu af fimm farþegum en sú staða hafi ef til vill breyst þar sem menn séu að vinna á fullu í rannsókn málsins.

Einhverjir farþeganna eru á leið af landi brott eða nú þegar farnir. Oddur segir lögregluna ekki fylgja því sérstaklega hvort og hvenær farþegarnir fara þar sem lögreglan telur sig búna að tryggja þau gögn hjá þeim sem eru ferðafærir.

Hann segir ekki hægt að segja til um það hvenær rannsókn málsins ljúki en hún geti tekið umtalsverðan tíma þar sem það sé í mörg horn að líta.

Tveir af farþegum rútunnar liggja enn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri að því er fram kemur í frétt mbl. Um helgina var greint frá því að þrír farþeganna væru á gjörgæsludeild Landspítalans og einn á bráðalegudeild en ekki hafa fengist upplýsingar frá spítalanum í dag hvort einhverjir þeirra hafa verið útskrifaðir.


Tengdar fréttir

Ákall til stjórnvalda um stórátak í vegamálum

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri í Sveitarfélagsins Hornafjarðar hefur miklar áhyggjur af vegamálum innan sveitarfélagsins í kjölfar rútuslyssins á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×