Viðskipti innlent

Gistinóttum á Airbnb fækkaði um 29 prósent

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rúmlega helmingur gistinátta er á höfuðborgarsvæðinu.
Rúmlega helmingur gistinátta er á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/vilhelm
Heildarfjöldi greiddra gistinátta í maí dróst saman um 10,2% milli 2018 og 2019. Að sögn Hagstofunnar munaði þar mestu um staði sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður, þar sem fækkunin var 29%. Einnig var 5,2% samdráttur á hótelum og gistiheimilum og 9,2% fækkun á öðrum tegundum gististaða.

Í úttekt Hagstofunnar fyrir gistinætur ferðamanna í nýliðnum maí segir að heildarfjöldi þeirra hafi verið 656 þúsund, samanborið við 731 þúsund sama mánuð í fyrra. Þannig voru gistinætur á hótelum og gistiheimilum 412 þúsund, gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru um 155 þúsund og um 89 þúsund í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Þrátt fyrir 3% fækkun gistinátta á hótelum fjölgaði þeim um 2% á höfuðborgarsvæðinu, en um 57% allra hótelgistinátta voru á því svæði. Að sama skapi fjölgaði gistinóttum á Austurlandi og Norðurlandi, um 17% og 11%. Hins vegar fækkaði gistinóttum töluvert á öðrum landssvæðum borið saman við maí í fyrra og vegur þar þyngst 25% samdráttur á Suðurnesjum og 12% samdráttur á Suðurlandi.

Á tólf mánaða tímabili, frá júní 2018 til maí 2019, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.405.800, sem er 2% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Nánar má fræðast um þróunina á vef Hagstofunnar.


Tengdar fréttir

Þúsundir ábendinga um óleyfilega heimagistingu og fjöldi mála áframsendur til skattrannsóknarstjóra

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur vísað tugum mála til lögreglu vegna brota á lögum um heimagistingu. Þúsundir ábendinga hafa borist um óleyfilega skammtímaleigu og hefur mörgum þeirra verið vísað til skattrannsóknarstjóra. Ráðherra segir þetta mun meiri árangur en búist hafi verið við og hefur ákveðið að eftirlit með heimagistingu verði til frambúðar.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.