Hagnaður Samkaupa, þriðju stærstu matvörukeðju landsins, jókst um 30 prósent og var 336 milljónir króna árið 2018. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Kaupfélags Suðurnesja, sem á 59 prósenta hlut í matvörukeðjunni.
Arðsemi eigin fjár var 15 prósent, samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins sem byggja á gögnum úr ársreikningi kaupfélagsins og ársreikningi Samkaupa frá 2017.
Samkaup keypti í fyrra af Basko sjö Iceland-verslanir, fimm verslanir 10-11 miðsvæðis í Reykjavík og báðar verslanir Háskólabúðarinnar.
Samkaup reka Nettó, Kjörbúðina, Krambúð, Samkaup Úrval og Samkaup Strax. Verslanirnar eru um 50, segir á heimasíðu fyrirtækisins.
Ekki kemur fram í ársreikningi Kaupfélagsins hve mikil velta Samkaupa var á árinu en árið 2017 nam hún 25,6 milljörðum króna.
