Afleiða hönnunar- og framkvæmdaráhættu eru skemmdir/gallar sem geta valdið uppsöfnun á raka sem síðar leiðir til þess að fara þarf í ótímabærar viðhaldsaðgerðir auk þess sem rakaskemmdir geta haft neikvæð áhrif á heilsu íbúa.

Byggingarraki í byggingarefnum breytir upphafskilyrðum hönnunarinnar og loftrásin getur átt erfitt með að þurrka raka sem er umfram eðlilegt álag og getur haft töluverð áhrif á heildarafkomu þaksins og langtíma endingu byggingarefna. Dæmi þekkjast um að mygla myndist í byggingarefninu á framkvæmdartíma og einnig eru dæmi um að timbur komi blautt og myglað á verkstað.

Geislun frá sólinni hjálpar almennt þakinu við að þurrka raka í loftrásinni en geislun til himinhvolfsins getur valdið undirkælingu í loftbilinu sem getur valdið því að raki fellur út á yfirborði borðaklæðningar. Á Íslandi eru naglar fyrir þakjárn yfirleitt negldir í gegnum þakdúk og borðaklæðningu og ná inn í loftrás og við nagla er jafnvel meiri hætta á að raki falli út í loftbilinu við undirkælingu þakflatarins.
Í byggingarreglugerð er vísað í hönnunarforsendur varðandi stærð og fjölda loftunarröra og þykktar á loftrásum. Uppruni þessara hönnunarforsenda og fræðin að baki þeim virðast vera óljós. Einnig má búast við því að loftunin geti dregið úr einangrunnargildi vegna lofthreyfinga í steinull.

Huga þarf að takmörkunum hvað varðar lengd loftrása, reikna þarf með þrýstifalli í loftrásinni og taka með í reikninginn að loftun verði óvirk ef loftrásir verða of langar. En jafnvel þó að tekið sé tillit til uppbyggingar þaka og loftunarleiðir útfærðar þar sem mögulegar hindranir á loftflæði eru þá verður að segjast að oft er um að ræða tæknilega flóknar aðgerðir sem oft skila takmörkuðum árangri. Einnig þekkjast dæmi um að loftrásum sé lokað með steinull á framkvæmdartíma.

Talið er að í mörgum tilvikum sé þessi krafa ekki uppfyllt og því er líka velt upp hvort að þessi krafa sé nægjanleg til þess að fyrirbyggja uppsöfnun raka í þakuppbyggingunni. Ef litið er til Noregs er krafan um loftleka stífari auk þess að fyrir ákveðnar byggingar er krafa um loftþéttleikapróf á framkvæmdarstigi.

Eftir þessa umfjöllun spyrja sjálfsagt margir sig af hverju við höfum byggt þök með þessu sniði í áratugi ef aðferðin er svona áhættusöm. Líklega er ein skýringin sú að það er tiltölulega stutt síðan að farið var að skoða mygluvöxt í byggingarefni en áður var ástand borðaklæðningar einungis metið með tilliti til fúa.

Við teljum þess vegna að ráðlegt sé að rannsaka virkni þessara þaka með tilliti til varma- og rakaflæðis betur og skoða hvort þau séu heppileg fyrir Íslenskar aðstæður og þá með hvaða hætti og í hvaða tilvikum. Við rannsóknir væri hægt að skoða hvort að aðrar uppbyggingar léttra þaka feli í sér minni áhættu með tilliti til rakaskemmda. Til dæmis þök sem eru loftuð utan við öndunardúk eða óloftuð timburþök.
Höfundar eru Eiríkur Ástvald Magnússon, Höskuldur Goði Þorbjargarson byggingarverkfræðingar og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir líffræðingur hjá EFLU verkfræðistofu.