Kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir fór á kostum á móti í Evrópumótaröðinni í Ástralíu í nótt en það gekk ekki eins vel hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur.
Valdís Þóra átti stórkostlegan hring og er í öðru sæti mótsins ásamt Mörtu Sanz Barrio eftir fyrsta hringinn. Þær eru báðar á þrem höggum undir pari en hin enska Holly Clyburn leiðir á fimm höggum undir pari.
Valdís Þóra byrjaði af krafti og fékk fugl á fyrstu þrem holum vallarins áður en hún fékk sinn fyrsta skolla á fjórða holunni. Hún lék því fyrri níu á tveimur höggum undir pari.
Hún fékk svo fjórða fuglinn á elleftu holu. Lokaholurnar voru nokkuð skrautlegar. Hún fékk fugl á fjórtándu, skolla á fimmtándu, fugl á sextándu og svo aftur skolla á sautjándu. Hún endaði svo hringinn frábæra á pari og kom í hús á 69 höggum.
Að sama skapi gekk ekkert upp hjá Ólafíu Þórunni sem kom í hús á 79 höggum eða sjö höggum yfir pari. Hún er í 113.-123. sæti og á litla sem enga möguleika á því að komast í gegnum niðurskurðinn á mótinu á morgun.
Valdís Þóra í öðru sæti í Ástralíu
Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Mest lesið

Sigurður Breki á spítala eftir harkalegt samstuð
Íslenski boltinn





„Við máttum ekki gefast upp“
Körfubolti


„Við elskum að spila hérna“
Fótbolti

