Viðskipti innlent

Meirihluti í G7-ríkjunum telur kynin jafnhæfa leiðtoga

Kjartan Kjartansson skrifar
Konur treysta konum almennt frekar til að leiða en karlar í G7-ríkjunum.
Konur treysta konum almennt frekar til að leiða en karlar í G7-ríkjunum. Vísir/Getty
G7-ríkin svonefndu skipta sér í tvo hópa þegar kemur að afstöðu til jafnréttis í leiðtogastöðum í samfélaginu. Ný vísitala sem kennd er við Reykjavík og var kynnt á ráðstefnu í dag sýnir að Bretar, Frakkar, Kanada- og Bandaríkjamenn eru líklegri til þess að telja kynin jafnhæf til að gegn stjórnunarstöðum en Japanir, Þjóðverjar og Ítalir.

Reykjavíkurvísitalan um forystu byggist á viðhorfskönnun þar sem tíu þúsund manns í G7-ríkjunum voru spurðir út viðhorf sín varðandi konur í áhrifastöðum í stjórnmálum og viðskiptum. Vísitalan nær frá núll upp í hundrað þar sem efri talan þýðir að samfélagið er algerlega sammála um að körlum og konum sé jafnvel treystandi til að vera við stjórnvölinn á öllum sviðum þess.

Fyrir G7-ríkin í heild var vísitalan 66. Í Bretlandi, Frakklandi, Kanada og Bandaríkjunum var hún um og yfir 70 en í hinum ríkjunum þremur var hún öllu lægri. Í Japan var hún 61, Þýskalandi 59 og á Ítalíu 59.

Töluverður munur var einnig á afstöðu kynjanna innan hvers ríkis. Almennt voru konur líklegri til að telja kynin jafnhæf en karlar, 67 gegn 61. Sambærilegt misræmi er til staðar í hverju landi fyrir sig og í öllum þeim tuttugu geirum sem spurt var um.

Þýskir karlar íhaldssamir

Innan við einn af hverjum fjórum þýskum karlmönnum sagðist líða vel með að kona stýrði landinu eða stórfyrirtæki. Það er töluvert lægra en meðaltal G7-ríkjanna þar sem 37% karla töldu konum treystandi til að stýra ríkisstjórn og 40% höfðu trú á þeim til að stýra fyrirtækjum.

Þýskar konur voru einnig undir meðaltali G7-ríkjanna. Aðeins 30% sögðust treysta konu til að stjórna landinu borið saman við 48% allra kvenna í G7-ríkjum.

Mest jafnræði var á milli afstöðu kynjanna í Bretlandi. Þar telja 78% kvenna kynsystur sínar jafnhæfar til að vera í áhrifastöðum og 75% karla.

Af einstökum geirum samfélagsins voru fjölmiðlar og afþreyingariðnaðurinn með hæsta skorið á Reykjavíkurvísitölunni, 80. Það var einnig yfir 75 í ýmsum vísinda-, tækni, verkfræði- og stærfræðitengdum störfum.

Alþjóðasamtökin Konur í pólitískri forystu (Women Political Leaders) kynntu Reykjavíkurvísitöluna á heimsþingi kvennleiðtoga í Hörpu í dag. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi ráðherra, er stjórnarformaður samtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×