Viðskipti innlent

Tuttugu sagt upp á Grundartanga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Norðurál rekur álverið á Grundartanga.
Norðurál rekur álverið á Grundartanga. Vísir/vilhelm
Tuttugu starfsmönnum álversins á Grundartanga var sagt upp í morgun. Í samtali við Vísi segir Sólveig Kr. Bergmann, upplýsingafulltrúi Norðuráls, að rekja megi uppsagnirnar til óhagstæðra þróunar á rekstrarumhverfi álversins.

Þar hafi ekki síst innlendir þættir leikið lykilhlutverk, til að mynda hækkandi launakostnaður.

Sólveig Kr. Bergmann, upplýsingafulltrúi Norðuráls.
Fundað var með starfsfólkinu sem sagt var upp, maður á mann, en öðrum bárust fregnirnar í tilkynningu sem send var út á starfsmenn Norðuráls.

Sólveig segir að uppsagnirnar gangi þvert á öll svið og allar deildir fyrirtækisins, ekki sé hægt að tiltaka einn einstakan hóp sem uppsagnirnar bitni verst á.

Um sé að ræða störf sem lögð verði niður og að búast megi við skipulagsbreytingum í framhaldinu. Deildir verði sameinaðar og reynt að hagræða enn frekar.

„Þetta er mjög erfiður dagur,“ segir Sólveig. „Það lögðust allir á eitt við það að gera þetta eins vel og kostur er. Hvort einhvern tímann sé hægt að gera svona hluti vel, það bara veit ég ekki,“ bætir Sólveig við.

„Akranes er lítið samfélag og fólk er náttúrulega í sárum. Það eru miklar tilfinningar í þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×