Kynningar

Fækka þarf hungruðum um 185 þúsund á degi hverjum

Heimsljós kynnir
Frá Níger.
Frá Níger. EC/ECHO/Anouk Delafortrie

Miðað við að 821 milljón manna lifi við hungurmörk í heiminum þarf að fækka hungruðum um 185 þúsund á hverjum degi næstu tólf árin til þess að ná öðru Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna: „Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði“. Þetta kom fram á ráðstefnu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) á alþjóðlegri ráðstefnu um matvælaöryggi í heiminum sem haldin er í Bankok á Tælandi.

„Við þurfum ekki aðeins að draga úr hungri heldur verðum við að fækka hungruðum miklu hraðar en áður,“ sagði Kostas Stamuoulis aðstoðarframkvæmdastjóri FAO á ráðstefnunni. Eins og áður hefur komið fram hefur hungruðum fjölgað á síðustu árum og samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna voru 821 milljón jarðarbúa í hópi hungraðra við síðustu áramót. Stamoulis sagði að þetta væru svipaðar tölur og fyrir tíu árum, „þannig að okkur miðar afturábak en ekki áfram,“ sagði hann.

Á ráðstefnunni kom fram að sífellt væri erfiðara að tryggja öllum íbúum jarðarinnar nægan mat, ekki síst vegna loftslagsbreytinga, landeyðingar og annarrar hnignunar landgæða sem grafi undan fæðukerfum.

Fimmta alþjóðlega skýrslan um stöðu næringarmála í heiminum – Global Nutrition Report 2018 – kom út í dag. Þar er lýst alvarlegum áhyggjum af ástandi þeirra mála og sagt að vannæring sé mikil og óásættanleg, en hún er dánarorsök 45% þeirra barna sem deyja fyrir fimm ára aldur. Einnig er fjallað í skýrslunni um heilbrigðisáhrif ofþyngdar og offitu sem dregur fjórar milljónir manna til dauða á ári hverju.

Í skýrslunni er að finna ýmsar upplýsingar um framfarir á síðustu áratugum, til dæmis hafi dregið talsvert úr vaxtarhömlun barna undir fimm ára aldri. Árið 2000 voru 32,6% barna með vaxtarhömlun en sú tala var komin niður í 22,2% á síðasta ári. „Framfarir hafa einfaldlega hingað til ekki verið nægar,“ segir Corinna Hawkins annar ritstjóra skýrslunnar og framkvæmdastjóri The Centre for Food Policy.

Í skýrslunni er bent á leiðir til þess að hraða framförum og þjóðir heims eru hvattar til þess að bregðast við og taka höndum saman um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030, í samræmi við Heimsmarkmiðin.


Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.