Viðskipti erlent

Vilja úthýsa mentóli úr vindlingum vestanhafs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mentólið gæti verið á útleið úr bandarískum sígarettum.
Mentólið gæti verið á útleið úr bandarískum sígarettum. Getty/Oliverhelbig
Matar- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna er sagt hafa í hyggju að leggja til bann við mentól-sígarettum þar í landi. Tillagan er liður í herferð stofnunarinnar gegn bragðbættum rafrettum og öðrum tóbaksvörum. 

Eins og fram kemur í umfjöllun New York Times um málið er þó ekki hlaupið að því að innleiða slíkt bann. Tillagan þyrfti að velkjast lengi um í bandarísku stjórnkerfi áður en það yrði leitt í lög. Áætlað er að ferlið muni hið minnsta taka um tvö ár - ekki síst ef tóbaksframleiðendur myndu setja sig upp á móti því.

Andstaða tóbaksrisanna ætti ekki að koma á óvart enda hefur hið fyrirhugaða bann þegar haft áhrif á afkomu þeirra. Greint var frá því í morgun að hlutabréfverð í tveimur stærstu tóbaksframleiðendum Bretlandseyja hafi fallið mikið frá opnun markaða. Áætlað er að annað þesssara fyrirtækja, British American Tobacco (BAT), hafi haft um fjórðung tekna sinna á síðustu árum af sölu mentól-sígaretta. Mögulegt mentól-bann kom því illa við fjárfesta, sem fluttu fjármuni sína úr BAT þegar markaðir opnuðu aftur eftir helgina.

Áður verið til skoðunar

Matar- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu árið 2013 að mentól-sígarettur væru hættulegri heilsu manna en hefðbundnar sígarettur, ekki síst vegna þess að það virðist vera erfiðara að losa sig úr fjötrum mentól-fíknar. Baráttufólk fyrir lýðheilsu hefur því lengi kallað eftir því að sala þeirra verði bönnuð.

Yfirmaður stofnunarinnar, Dr. Scott Gottlieb, hefur ekki viljað staðfesta fréttirnar en í nýlegu viðtali  sagði hann að undirmenn hans væru með málið til skoðunar. Mentól-bannið hafi áður komið til tals og er það skoðun Dr. Gottlieb að það hafi verið mistök að hverfa frá því á sínum tíma.

Talsmaður tóbaksrisans BAT þvertekur fyrir það að mentól-sígarettur séu skaðlegri en aðrar sígarettur. Haft er eftir honum á vef breska ríkisútvarpsins að fari bannið í formlegt ferli muni fyrirtækið leggja fram umsögn þar sem tíundaðar verði vísindalegar staðreyndir máli þess til stuðnings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×