Skoðun

Það lafir ekki meðan ég lifi

Halldór Reynisson skrifar
Umhverfismálin og þá sérstaklega hlýnun andrúmsloftsins eru stærsta áskorun mannkyns að mati þeirra sem rannsaka loftslag og umhverfi. Náttúran, sköpunarverkið stynur undan atferli manneskjunnar, rányrkju, mengun og óhófi. Vísindamenn segja okkur að ef mannkynið snúi ekki af braut óhófs og ósjálfbærni – nema við hættum að spúa koltvísýringi út í andrúmsloftið þegar við stígum á bensíngjöfina – sé hætta á að illa fari. Dómsdagsboðskapurinn kemur að þessu sinni frá náttúruvísindamönnum ekki frá spámönnum né prestum.

„Það lafir meðan ég lifi“ er haft eftir Loðvík 15. Frakkakóngi. Ef við hugsum þannig er hætt við að allt „fari til fjandans“.

Og þó er von ef við bregðumst snarlega við, sérstaklega varðandi losun koltvísýrings – eða bindingu hans í mótvægisaðgerðum. Ef ekki, þá stefnum við framtíð barnabarna okkar í tvísýnu með þjáningum og átökum um takmörkuð gæði.

Elska skaltu náungann er æðsta – sumir segja eina boðorð kristninnar. Kristnar kirkjur og kirkjuleiðtogar víða um heim eru farnir að tala um náttúruna sem náunga okkar, þ. á m. Frans páfi. Og þessi náungi okkar er nú um stundir sárt leikinn.

Þjóðkirkjan, þessi aldna stofnun í landi okkar vill að sínu leyti leggja þessum náunga okkar lið. Þess vegna umhverfisstarf og aðgerðaáætlun til að laða fram græna kirkju og græna söfnuði.

Og nú er tími sköpunarverksins haldinn víða í kirkjum heimsins m.a. hér á landi. Tímabilið markast m.a. af afmælisdegi Frans frá Assisi sem margir líta á sem dýrling náttúrunnar. Í mörgum kirkjum landsins eru haldnar uppskerumessur og átak er í gangi að söfnuðir landsins temji sér sjálfbærni. Opnaður hefur verið vefur kirkjan.is/grænkirkja, bæklingur gefinn út „Græni söfnuðurinn okkar“ og handbók fyrir söfnuði um umhverfisstarf, m.a. umhverfisáherslur í barna- og æskulýðsstarfi. Stofnanir kirkjunnar eru hvattar að tileinka sér „græn skref“ Umhverfisstofnunar. Á kirkjujörðum á að efla skógrækt og endurheimt votlendis er hafin í Skálholti. Og biskup Íslands hefur undirritað áskorun um bann við notkun mengandi svartolíu í Norðurhöfum.

Hér erum við öll á sama báti óháð lífsskoðun. Ef við viljum tryggja afkomendum okkar örugga framtíð þurfum við að breyta um lífsstíl – og byrja núna.




Skoðun

Sjá meira


×