Körfubolti

Hlynur: Kannski einhver splæsi í nýja klukku

Benedikt Grétarsson skrifar
Hlynur í leik með Stjörnunni.
Hlynur í leik með Stjörnunni. vísir/ernir
Baráttuhundurinn Hlynur Bæringsson var hæfilega kátur þrátt sigur Stjörnunnar gegn Þór í kvöld.

Hlynur var frekar ósáttur við hvimleiða vallarklukkuna í Mathús Garðabæjar höllinni, sem ítrekað bilaði og skemmdi flæðið í leiknum.

„Þetta var eiginlega agalegt. Alveg skelfilegt bara en það er búið að vera vesen á þessari helvítis klukku. Það er nú kannski bara kominn tími á að þetta verði bara lagað í eitt skipti fyrir öll. Það ætti að vera til nóg af peningum hérna, mér skilst það. Kannski einhver splæsi í nýja klukku,“ sagði Hlynur að leik loknum.

Hlynur er sammála blaðamanni að Stjarnan hafi verið sterkari aðilinn allan leikinn.

„Við vorum alveg með þennan leik nokkuð öruggan fannst mér. Það datt bara allt hjá okkur en mér fannst þetta ekki skemmtilegur leikur. Það fór einhvernveginn allur taktur úr leiknum. Þeir hitta illa í byrjun en Þór er með fínt lið, sérstaklega þegar þeir eru komnir aftur með Gintautas.“

„Við erum bara ánægðir með að vinna leikinn. Við tökum því bara en þetta var ekkert sérstakt og mér líður ekkert eins og ég hafi unnið. Ég er hálf pirraður bara,“ sagði fyrirliðinn.

Næsti leikur Stjörnunnar er gegn spræku liði Breiðabliks og þar verður hart barist.

„Nú eru það bara Blikarnir í bikarkeppninni á mánudaginn. Það verður meira fjör þar, andskotinn hafi það! Það verður búið að laga klukkuna og svona,“ sagði Hlynur léttur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×