Golf

Mamman svindlaði og dóttirin var dæmd úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Doris Chen.
Doris Chen. Vísir/Getty
Það er oftast mjög gott að fá hjálp frá móður sinni en ekki alltaf. „Hjálpsöm“ móðir í úrtökumóti LPGA-mótaraðarinnar í golfi gekk aðeins of langt.

Doris Chen var eins og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir að berjast um sæti á bandarísku atvinnumannaröðinni á næsta ári en draumur hennar breyttist í martröð. Doris Chen var nefnilega dæmd úr leik og ástæðan var framtakasemi móður hennar á hliðarlínunni.

Doris Chen er fyrrum bandarískur háskólameistari í golfi og var að keppa á Pinehurst golfvellinum í Norður Karólínu þegar hún fékk óvænta en afdrifaríka hjálp.

LPGA dæmdi Doris Chen úr leik fyrir að spila bolta sem móðir hennar, Yuh-Guey Lin, færði inn á braut eftir upphafshögg dóttur sinnar endaði utan brautar. Húsaeigandi í nágrenni holunnar var vitni að þessu og lét vita af svindlinu.

Alex Valer, kylfusveinn Doris Chen, sagðist hafa reynt að fá hana til að segja frá því sem móðir hennar gerði en Doris tók það ekki í mál. Um leið og hún lék boltanum þá braut hún reglurnar og var á endanum dæmd úr leik.





Alex Valer sagði húseigandann hafa bent á móður Doris Chen og sakað hana um að koma boltanum aftur inn á braut.

Doris Chen sendi frá sér yfirlýsingu á Twitter sem má sjá hér fyrir neðan. Þar talar hún um misskiling og að hún eða kylfusveinn hafi ekki séð neitt athugavert við stöðu boltans. Hún er því ekki að segja sömu sögu og kylfusveinninn hennar sem verður væntanlega ekki með henni í næsta móti.





Í sjónvarpsviðtali eftir að hún var dæmd úr leik sagði Doris Chen vera miður sín yfir þessu máli og þvertók fyrir það að hún væri svindlari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×