Körfubolti

Sverrir Þór: Ég hefði getað farið inn á og gert helmingi betur

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson í Blue-höllinni skrifar
Sverrir var sáttur með sigurinn, en ekki eins sáttur með spilamennskuna
Sverrir var sáttur með sigurinn, en ekki eins sáttur með spilamennskuna

Það voru blendnar tilfinningar hjá Sverri Þór Sverrissyni, þjálfara Keflavíkur eftir sigur sinna manna gegn Breiðablik. Keflvíkingar áttu ekki góðan leik í kvöld, og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Keflvíkingar voru mun sterkari í seinni hálfleik og skóp það sigurinn. Fallegur sigur var þetta ekki hjá Keflavík, en sigur er sigur.
 
„Já alveg klárlega. En við vorum bara arfaslakir í fyrri hálfleik. Ég var hrikalega pirraður hvað það var mikið baráttu- og viljaleysi og mönnum var bara alveg skítsama. Ég veit ekki hvort að þeir hafi haldið að Blikarnir hafi ætlað að koma hingað og reyna að tapa. Þeir með hörku mannskap. Við vorum bara í tómum vandræðum en ég er ánægður með viðsnúninginn í seinni hálfleik. Þá fórum við að berjast og leggja okkur fram í vörn.“
 
Blikar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik, og fyrir leik bjuggust líklega fáir við því. Sverrir var ekki klár á því hvort um vanmat hafi verið að ræða.
 
„Ég veit ekki. Við höfum ekki efni á að vanmeta einn né neinn. Þótt svo við séum búnir að vinna marga leiki í upphafi móts þá eru þetta allt hörkuleikir. Það er ekkert lið í þessari deild lélegt þannig að þú getir bara mætt og engan veginn verið að pæla í leiknum og vinna. Það er ekki þannig, og það verður ekki þannig. Við þurfum heldur betur að fara hugsa okkar gang ef við ætlum ekki að fara tapa fullt af leikjum því við erum ekki nógu vel mótiveraðir. Við getum ekki komið aftur svona eins og í kvöld.“
 
Aðspurður um hvað fór úrskeiðis hjá Keflvíkingum í fyrri hálfleik var svar Sverris einfalt. Hann þótti sínir menn vera latir.
 
„Mér fannst menn bara hreinlega latir. Ég hefði getað farið þarna inn á og gert helmingi betur. Það væri sorglegt en ég hefði allavega nennt þessu. En menn svöruðu þessu í seinni hálfleik og það er mjög jákvætt. Við þurfum að halda áfram frá því sem við gerðum í seinni hálfleik. Þú átt aldrei að geta látið fólk segja við þig að þú hafir verið latur og ekki með vilja. Ég vil ekki sjá það aftur í mínu liði.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.