Skoðun

Rétt'upp hönd strákar

Eva Magnúsdóttir skrifar
Rétt' upp hönd ef þú vilt taka raunveruleg skref í átt að jafnrétti. Þetta er einfaldlega ekki komið og staðreyndin er sú að með sama hraða þá verður fullu jafnrétti ekki náð í atvinnulífinu fyrr en á næstu öld. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 starfsmenn voru sett 2010 og tóku þau gildi 2013. Lögin gera ráð fyrir því að hlutfall hvors kyns í stjórninni skuli vera að minnsta kosti 40% í lok ársins 2013. Eftir gildistöku laganna var hlutfall kvenna orðið að 33% í stjórnum fyrirtækja en hefur staðið í stað síðan lögin tóku gildi. Lögin hafa að auki lítil áhrif haft á stöðu kvenna í framkvæmdastjórnum eins og vonir stóðu til og sem dæmi í félögum sem eru skráð á hlutabréfamarkað eru konur í framkvæmdastjórnum einungis 25%.

Til þess að bregðast við þessari stöðnun hleypti FKA af stokkunum verkefninu Jafnvægisvoginni í samstarfi við velferðarráðuneytið, Deloitte, Sjóvá, Morgunblaðinu og Pipar\TBWA. Er markmiðið með verkefninu að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum.

Í anda markmiða Jafnvægisvogar framleiddi auglýsingastofan Pipar\TBWA metnaðarfullt myndband sem tók flugið á samfélagsmiðlunum í síðustu viku. Myndbandið lýsir mýtunni sem byggir á því að konur séu ekki nægilega vel menntaðar, þær hafi ekki reynslu og séu tregar að rétta upp hönd og taka ábyrgð. Konur hafa rétt upp hönd í mörg ár og hjá FKA eru listar þar sem fjöldi kvenna hefur lýst sig reiðubúna að koma fram í fjölmiðlum og taka sæti í stjórnum. Myndbandinu Rétt' upp hönd er ætlað að vekja athygli á uppréttum höndum kvenna.

Mælaborð jafnréttis verður kynnt á ráðstefnu FKA og samstarfsaðila þann 31. október næstkomandi á hótel Nordica. Karlar eru sérstaklega hvattir til að koma og taka þátt í umræðunni um eitt mikilvægasta málefni framtíðar, jafnrétti.
Skoðun

Skoðun

Samgönguáskorun

Sigurður Ingi Friðleifsson,Guðmundur Haukur Sigurðsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.