Skoðun

Áhættunnar virði?

Davíð Þorláksson skrifar
Ég lofa að þessi Bakþanki er ekki um Braggann. Það er alkunna að opinberar framkvæmdir standast sjaldan kostnaðar- eða tímaáætlanir. Rannsókn frá Háskólanum í Reykjavík sýnir að opinberar innviðaframkvæmdir á Íslandi fara að meðaltali um 70% fram úr áætlun og 90% stórra framkvæmda fara bæði fram úr tíma og kostnaði.

Bárujárnsklædd bogalaga bygging í Nauthólsvík, sem ég ætla ekki að nefna, er allt í senn besta og versta dæmið um framúrkeyrslu á opinberum framkvæmdum. Versta dæmið því fjárhæðirnar eru litlar og besta dæmið því fjárhæðirnar eru litlar. Flestir eiga auðveldara með að setja 757 þúsund króna strá í samhengi en 9 milljarða króna framúrkeyrslu á Vaðlaheiðargöngum. Það verður að beina þeirri þverpólitísku óánægju sem nú er uppi í þann farveg að endurhugsa hvernig staðið er að opinberum framkvæmdum.

Ein augljós leið er að sveitarfélög hætti að kaupa og endurgera gamlar fasteignir. Allir sem hafa gert upp gömul hús vita að það er áhættusamt. Best væri að eftirláta einkaaðilum að taka á sig þá áhættu en ekki að leyfa stjórnmála- og embættismönnum að gera það á áhættu skattgreiðenda. Sama gildir um innviðaframkvæmdir. Það ætti að eftirláta einkaaðilum oftar að taka á sig þá áhættu sem felst í uppbyggingu og rekstri innviða.

Bent hefur verið á að um 2-300 milljarða króna innviðaverkefni séu nú í pípunum. Aðeins 20% framúrkeyrsla, sem meira að segja Pollýönnu myndi finnast ansi bjartsýnt viðmið, myndi duga til að byggja nýjan Landspítala. Það er því eftir miklu að slægjast með því að gera þetta betur.




Skoðun

Sjá meira


×